154. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2023.

samningar við sjúkraþjálfara.

[15:17]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir spurninguna. Hún er mikilvæg. Já, ég myndi alveg örugglega eftir ár svara því sama vegna þess að ég legg mikla áherslu á að við náum saman við sjúkraþjálfara. Ég lít á þetta sem mjög mikilvægan lið í endurhæfingunni þvert á. Til að mynda, bara til að staðfesta áhuga og mikilvægi endurhæfingar í heilbrigðisþjónustu og velferðarþjónustu allri, þá höfum við núna skipað endurhæfingarráð þvert á félagsmálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti þannig að við vinnum betur saman með öllum aðilum. Þar er auðvitað þáttur sjúkraþjálfara inni á öllum stofnunum, sjálfstætt starfandi og allra annarra, mjög mikilvægur.

Af því að hv. þingmaður kom hérna inn á offituna þá er tíðni hennar því miður að aukast eins og alls staðar í hinum vestræna heimi. Það er alveg sérmál og stórmál og ég er sannfærður um að hv. þingmaður kemur bara í samræður við mig um það mál seinna meir.