154. löggjafarþing — 39. fundur,  28. nóv. 2023.

landsskipulagsstefna fyrir árin 2024--2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024--2028.

535. mál
[17:46]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. innviðaráðherra fyrir sína framsögu. Eins og komið hefur fram í umræðunni er hér um efnismikið plagg að ræða og margt mjög gott sem þarna er að finna, er bara nokkuð ánægður með þetta svona við fyrstu yfirferð. Mér dettur nú í hug til að byrja með í nútíð þetta þjónustukort sem hæstv. innviðaráðherra setti á fót á sínum tíma í góðu samstarfi við önnur ráðuneyti sem var góð hugmynd en hefur kannski því miður ekki virkað eins og menn sáu fyrir sér á sínum tíma en er vel hægt að þróa áfram. Ég held að það megi vel taka þetta áfram. Ég sé einmitt fyrir mér eins og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir nefndi áðan að það verði til heildrænt kort yfir þetta allt saman þar sem við sjáum betur hvernig við ætlum að þróa landið okkar með tilliti til orkunýtingar, vindorku og annars konar nýtingar á þeim sviðum, með tilliti til samgöngumála, hvernig við ætlum að þróa miðhálendið okkar. Það er ágætlega tekið á þessu öllu saman í þessu skjali og ég ætla bara hrósa hæstv. ráðherra fyrir það.

En svo er annað í þessu. Maður kannast við margt sem má finna í skjalinu, sums staðar svolítið opið orðalag, og við sem höfum starfað á sveitarstjórnarstiginu þekkjum auðvitað margar áskoranir sem þarna koma fram. Ég ætla að leyfa mér að taka á nokkrum þáttum, kannski má segja yfirborðskennt en ég ætla að fara aðeins í markmiðin og svo aðeins í aðgerðaáætlunina og þá sérstaklega ætla ég að snerta á þessum markmiðum sem tengjast skipulagsmálum og varða innviðauppbyggingu og uppbyggingu nýrra hverfa. Þarna er auðvitað margt sem við könnumst við og bara í ljósi þess sem hefur verið að gerast í samfélagi okkar á síðustu vikum og mánuðum, jarðhræringar á Reykjanesi og annars konar áskoranir eins og eldgos og annað þá er það eitthvað sem við þurfum kannski að fara að taka meira tillit til þegar við erum að skipuleggja okkar byggð og breytir kannski því hvernig við munum hugsa til framtíðar þegar kemur að þessum málum. Og það er ágætlega tekið á þessu í kaflanum um markmið um velsæld samfélags. Þessar áherslur eru að mörgu leyti mjög góðar. Ég hnýt sérstaklega um það, vegna þess að ég hef talað mikið um þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir í mínu kjördæmi, Suðvesturkjördæmi, hvernig okkur á að takast að byggja nægilega mikið magn íbúða á næstu mánuðum og árum til að bregðast við þessari miklu fólksfjölgun sem var ekki gert ráð fyrir á sínum tíma þegar svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins var samþykkt árið 2015. Í þessum kafla segir í áherslu B.2, 5. lið:

„Í skipulagi verði skýr skil milli þéttbýlis og dreifbýlis og vaxtarmörk þéttbýlisstaða skilgreind með það fyrir augum að efla viðkomandi þéttbýlisstað …“

Þetta held ég að sé eitthvað sem alltaf vakir fyrir þeim sem fara með völdin hverju sinni, að tryggja, eins og ráðherrann kom inn á í sinni framsögu, að þéttbýlisstaðir geti þróast með þeim hætti að þar verði góð þjónusta fyrir íbúa, þar geti þjónusta þrifist, öflug menning o.s.frv. Þetta er allt sem ég geri ráð fyrir og ég þekki það bara sjálfur að þetta er allt það sem við erum að horfa til þegar við erum í dag að skipuleggja ný svæði hjá okkur. Þarna er fleira sem er tekið inn, svo sem að tryggja öfluga grunnþjónustu og fjölbreytt atvinnutækifæri. Þetta eru setningar sem mér finnast bara sjálfsagðar, ef svo má segja, auðvitað fínt að hafa þetta inni í skjali eins og þessu, en ég get alveg tekið undir það að þegar það er búið að vinna hvítbók og grænbók og hvað þetta heitir nú allt saman þá hefði maður kannski viljað sjá aðeins dýpra á þessu tekið. Það kemur kannski bara fram í frekari vinnu.

En það er annað sem mig langar að snerta á sem við þekkjum og ég held að að mörg okkar kannast kannski við. Í áherslu B.5 segir, með leyfi forseta: „Skipulag stuðli að jöfnu aðgengi að orku um land allt og traustum veituinnviðum sem tryggja öryggi.“ Þar undir segir í 7. lið: „Skipulagsákvarðanir um fjarskiptamannvirki í þéttbýli geri kleift að byggja upp traust fjarskiptakerfi, en taki jafnframt tillit til umhverfisáhrifa.“ Ég held að þetta sé mjög mikilvægur punktur vegna þess að við þekkjum það bara, og ég ætla að leyfa mér að halda áfram með samhengið við uppbyggingaráform á nýjum svæðum og stöðum, að þetta kemur inn allt of seint. Það eru kannski bæði skipulagsyfirvöld tiltekinna sveitarfélaga eða fjarskiptafyrirtækin sem koma of seint með beiðnir inn í skipulagsvinnuna alla saman. Það er of seint gert ráð fyrir fjarskiptainnviðum í nýju deiliskipulagi. Þetta gerist oft þegar skipulag hefur fengið að þróast og er búið að ganga sinn feril allan, þá vaknar fólk oft upp við vondan draum, það hefur ekki gert ráð fyrir þessu, að það sé ekki nægilega gott samband, samband sem okkur þykir eðlilegt í dag. Og af því að hæstv. ráðherra er hér í salnum þá hefði ég kannski viljað sjá fjallað um þetta í aðgerðaáætlun með einhverjum hætti, þ.e. að fjarskiptamálin fengju þar bara sérstaka aðgerð, vegna þess að ég held að þetta sé allt alveg gríðarlega brýnt í okkar samfélagi um land. Við þekkjum það enn í dag að við erum með, hvað segir maður, dauða bletti víða um landið sem er auðvitað ekkert annað en öryggismál. Við þurfum stöðugt að reyna að koma í veg fyrir að þeim dauðu blettum sé að fjölga, við þurfum af öllum mætti að koma í veg fyrir slíkt.

Ég sé að það er vel gerð grein fyrir því að í skipulagi séu gerðar nauðsynlegar ráðstafanir til að stuðla að öryggi almennings gagnvart náttúruvá. Ég held að það séu allir meðvitaðir um það á þessu svæði hér á suðvesturhorninu og teygir sig auðvitað suður með sjó, þessi mál hafa áhrif á skipulag byggðar og uppbyggingu þjóðhagslega mikilvægra innviða. Þetta er allt eitthvað sem við þurfum að opna augun enn betur fyrir og taka tillit til. Annað sem er hér inni og við höfum svo sem rætt áður er varðandi kolefnisfótspor í byggingargeiranum og hvernig við getum minnkað það kolefnisspor. Það er auðvitað hægt og ýmis sveitarfélög hafa verið að feta þann veg að setja inn hvata með afslætti á lóðaverði vegna þess að við erum enn þá á þeim stað að það er dýrara að byggja samkvæmt þessum umhverfisstöðlum heldur en að byggja samkvæmt þeim hefðbundnu aðferðum sem hafa verið hér við lýði í áratugi.

Aðgerðaáætlunin er annars mjög góð. Ég er heilt yfir mjög ánægður með að sjá metnaðinn sem ráðherra og ráðuneytið hefur lagt í þessa vinnu og sérstaklega þegar kemur að þessum tveimur eða þremur þáttum varðandi skipulagsmálin og uppbyggingu húsnæðis, áhersluna á uppbyggingu og viðhald á þjóðhagslega mikilvægum innviðum og svo er ég mjög ánægður að sjá hér að fjallað sé um vindorku í þessu skjali.