154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

móttaka flóttafólks frá Palestínu.

[15:33]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er alveg ljóst að það er skelfilegt ástand á Gaza og einmitt þess vegna hafa íslensk stjórnvöld verið að auka framlög sín til mannúðaraðstoðar á svæðinu, gert það núna tvisvar frá því að þessir atburðir hófust og talað mjög skýrt fyrir mikilvægi þess að kallað verði eftir vopnahléi og að veittur verði aðgangur fyrir mannúðaraðstoð inn á svæðið. Það hefur færst aukinn þungi í okkar málflutning eftir því sem þessum atburðum hefur undið fram. Við höfum sömuleiðis kallað eftir því að framganga ísraelskra stjórnvalda verði rannsökuð og við höfum kallað eftir því að alþjóðalög og mannúðarlög séu virt, þeim fylgja ekki bara réttindi heldur einnig skyldur. Við höfum líka veitt viðbótarframlag til Alþjóðlega stríðsglæpadómstólsins til þess að tryggja að hann geti sinnt sínu hlutverki.

Hvað varðar flóttafólk og fjölskyldusameiningar er til ágætlega mótað verklag um þau málefni þar sem Rauði krossinn vinnur með umsækjendum í nánu samstarfi við Útlendingastofnun. Síðan ef umsagnir eru samþykktar kemur Vinnumálastofnun formlega að málinu og hefur samband við alþjóðastofnunina IOM til að tryggja framkvæmd slíkra sameininga. Hún er hins vegar flókin þegar um er að ræða ástand eins og við sjáum núna á Gaza og við þekkjum það líka af því að nú fyrst erum við í raun og veru að sjá þá Afgani, sem ákveðið var að taka á móti á sínum tíma, vera að skila sér til landsins, loksins eftir töluvert langan tíma. En þetta verklag eigum við og fylgjumst auðvitað mjög grannt með þeim málum sem sérstaklega heyra undir mögulegar fjölskyldusameiningar hér á landi.