154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

um fundarstjórn forseta.

[15:39]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég verð að gera athugasemd við fundarstjórn hæstv. forseta. Auðvitað er forseti í þeirri stöðu að þurfa að leggja hér til atkvæðagreiðslu tillögu hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um að taka til 1. umræðu frumvarp til laga um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir sem er þriðja mál á dagskrá samkvæmt þeirri sem hér liggur fyrir. Þessari bók, það er ekki hægt að lýsa því öðruvísi, sem innifelur m.a. 14 ESB-gerðir, í kaupbæti við allt annað sem þarna kemur fram, var dreift hér seinni partinn í gær. Við þingflokksformenn fengum meldingu um þetta um kvöldmatarleyti og það á að taka hana hér til umræðu með afbrigðum í dag. Það er alveg forkastanlegt að mál eins og þetta sé að koma hér inn í þingið 11 dögum fyrir áætlaða jólafrestun þingsins, með kröfu um að það sé klárað fyrir áramót. Hvaða endemis della er þetta, burt séð frá því hver afstaða þingmanna er til málsins?