154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

um fundarstjórn forseta.

[15:53]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Hér er ekki bara lögð til áframhaldandi innleiðing á færibandinu, hér er lögð til innleiðing með fallbyssu. Hvers vegna í ósköpunum vill þessi ríkisstjórn slá öll met í Evrópusambandsinnleiðingum og sýna meiri undirgefni gagnvart Evrópusambandinu heldur en nokkrir aðrir flokkar hafa gert, þar með talin fyrrnefnd Samfylking og Viðreisn? Undirgefni þessarar ríkisstjórnar gagnvart Evrópusambandinu virðist orðin takmarkalaus. Einhver sendi tölvupóst væntanlega á einhvern ráðherrann og rak á eftir þessu og þá er þetta keyrt hérna inn í þingið, 14 innleiðingar án eðlilegrar þinglegrar meðferðar, m.a. varðandi mál sem töldust þau erfiðustu sem frá Brussel hefðu komið að mati ráðherra í þessari ríkisstjórn. Ég bara skil það ekki, herra forseti, hvernig ég allt í einu finn mig í þeirri stöðu að flokkar sem hafa að mínu mati verið með Evrópusambandsþráhyggju árum saman eru allt í einu orðnir varfærnari hvað Evrópusambandið varðar og vilja sýna aðeins meiri festu en þessi ríkisstjórn.