154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

lögheimili og aðsetur o.fl.

542. mál
[16:36]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég myndi að sjálfsögðu byrja með þessi lög. Rétt eins og ég hef sagt hér áður: Þetta eru góðir punktar sem slökkvilið og aðrir hafa sagt að sé mikil þörf á. Ég hefði kannski gengið jafnvel aðeins lengra í sumum hlutum og jafnvel sett hærri sektir á þá sem brjóta reglurnar og ýmislegt þess háttar. Hins vegar held ég að það sé mjög mikilvægt að sérstaklega sé horft til þess hverjir búa í raun í þessu húsnæði. Það eru, eins og ég sagði áður, útlendingar og það er fólk sem hefur hvað minnst á milli handanna, fólk sem lifir við fátækt.

Þar þurfum við að fara í aðgerðir. Það er hægt að fara í aðgerðir eins og t.d. að setja takmörk á það hversu mikið húsnæði er í útleigu í gegnum hluti eins og Airbnb. Það er hægt að setja takmark eða hærri skatta á það ef þú átt fleiri en tvö húsnæði og ert að leigja það út. Það eru til alls konar aðgerðir sem við höfum séð í löndum í kringum okkur sem eru notaðar til þess að auka það hversu mikið magn af húsnæði er í rauninni laust en ekki notað undir bara ferðamenn og annað.

Þetta eru allt saman leiðir sem hægt er að fara. Svo myndi ég fara í það að byggja fullt af húsnæði fyrir þá sem eru með minna á milli handanna. Það er t.d. núna búið að tilkynna það að ríkið ætlar að kaupa íbúðir í gegnum húsnæðisfélög, Bjarg og ég man ekki hvað hitt var, fyrir Grindvíkinga. Af hverju erum við ekki að gera það nákvæmlega sama fyrir þetta fólk og losa okkur við fólk úr iðnaðarhúsnæði?