154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

lögheimili og aðsetur o.fl.

542. mál
[16:41]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvarið. Ég held að hv. þingmaður ætti að kynna sér hvernig þessar aðstæður eru. Hér erum við ekki að tala um einhver falleg loft, eins og hv. þingmaður kallaði það, fyrir listamenn. Hér erum við að tala um það að búið er að taka iðnaðarhúsnæði og búa til örlítil tveggja, þriggja eða fjögurra fermetra herbergi sem fólk leigir dýrum dómum. Það er sko ekki einhver listamannaparadís. Ég held líka að áður en að ég tæki við innviðaráðuneytinu, eins og hv. þingmaður lagði til, myndi ég nú yfir góðum kaffibolla og kökum fara yfir starfið með núverandi hæstv. ráðherra, fá að vita hvort það sé nú skemmtilegt starf til að taka við. En ég ítreka það enn og aftur: Ég er hjartanlega sammála öllu því sem kemur fram í þessu frumvarpi og vona að það fái skjóta og góða afgreiðslu innan þingsins því að þetta er gott mál. En við megum ekki skýla okkur bak við það að við séum að laga öryggisreglur. Við þurfum að taka á þessu vandamáli sem er óleyfisaðsetur í atvinnuhúsnæði þar sem fólk er búandi, ekki bara við aðstæður sem eru hættulegar heldur líka algerlega ómannúðlegar.