154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[17:40]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið. Því miður stendur okkur ekki til boða að ræða þetta fram á rauða nótt vegna þeirra takmarkana sem þingsköp setja um 1. umræðu en við gerum það kannski við 2. umræðu ef hæstv. ráðherra mætir til hennar, sem ráðherrar gera allt of sjaldan. Ég hvet hæstv. ráðherra til að taka þátt í henni þegar þar að kemur, þó að eflaust muni þrengja að í tíma í ljósi almenns tímaskorts sem þetta mál finnur sig í.

Hæstv. ráðherra talar hér um þau áhrif eða þann árangur sem ætlað er að ná fram með CBAM. Ég gef mér að það sé orðanotkunin um þetta kerfi, jöfnunarkerfi kolefnislosunar gagnvart landamærum EES og ESB. Það sem ég kom inn á í ræðu minni, svo það misskiljist ekki — gott og vel, ef ég skil það rétt er CBAM ekki partur af því regluverki sem hér er innleitt. Það er aftar á færibandinu og kemur síðar. En þá eru áhrifin sem orðið hafa þau að verð á vöru og þjónustu hefur hækkað fyrir alla þá sem neyta þeirra innan markaðssvæðisins, Evrópu í þessu tilfelli. Verð á allri þjónustu fyrirtækja sem bera þennan kostnað, allri þjónustu og vörum sem heimilin kaupa af þessum sömu fyrirtækjum hefur hækkað. Ég hef áhyggjur af því að einu raunverulegu áhrifin af öllu þessu regluverki verði að kostnaður og flækjustig aukist, það verði erfiðara fyrir lítil og millistór fyrirtæki að reka sig og það verði í raun bara stærstu fyrirtækin sem ráða við að mæta þessu fargani sem á þeim skellur.