154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[17:47]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F):

Virðulegi forseti. Það kom skýrt fram í umræðum hér í gær um loftslagsmál að við ætlum okkur ekki að vera neinir eftirbátar í baráttu heimsins í loftslagsmálum en eitt stærsta verkefnið í þeirri vinnu er að lágmarka losun gróðurhúsalofttegunda. Frumvarp þetta sem við höfum hér til umræðu er einmitt til þess fallið að innleiða ETS-kerfi Evrópusambandsins í íslenska löggjöf og má segja að það sé heilt yfir jákvætt skref áfram og er það leið til að hvetja fyrirtæki til að losa minna. Hins vegar þurfum við að hafa í huga, eins og með allt regluverk sem gilda skal í fjölmörgum ríkjum, hvort sem þau eru stór eða smá, að vert er að staldra við og greina umfang þess og í rauninni þýðingu fyrir Ísland. Við Íslendingar eigum öll að beita okkur í beinni hagsmunagæslu fyrir landið því að við erum hvorki milljóna manna ríki né staðsett á meginlandi Evrópu. Ísland er 400.000 manna ríki, eyríki í Norður-Atlantshafi í talsverðri fjarlægð frá meginlandi Evrópu; ríki sem er að mestu knúið áfram með hreinum og sjálfbærum orkukostum. Vissulega fylgja þessu gallar og áherslur sem eru frábrugðnar hefðbundnum Evrópuríkjum. Því getur það hæglega gerst að ákvæði regluverks frá risastóru milliríkjasambandi sé ekki samið með sérstakar aðstæður fjarlægs eyríkis í huga. Hér eiga þau sjónarmið við að taka þurfi sérstakt tillit til okkar aðstæðna. Við viljum sinna okkar skyldum á sviði loftslagsmála en getum ekki virt að vettugi nauðsyn þess að flagga þeim atriðum sem henta ekki íslenskum aðstæðum.

Hér hefur t.d. verið rætt mikið um flugið og það samkomulag sem hefur náðst en fleiri atriði geta haft talsverð áhrif á íslenskt atvinnulíf, hvað þá í brothættum byggðum. Tryggja þarf að íslensk fyrirtæki séu samkeppnishæf í sífellt minnkandi heimi og að reglur sem þessar komi ekki í veg fyrir tækifæri til frekari þróunar og eflingar atvinnulífs. Það er ekki nýtt af nálinni innan Evrópusambandsins að veita ríkjum sem liggja á ystu svæðum þess þar sem skilyrði eru önnur ákveðnar undanþágur og að ákveðin séu skilyrði eða lengri aðlögunartími þegar nýtt regluverk er samið. Þau kallast ystu svæði Evrópusambandsins sem eru fámenn eyríki staðsett langt frá meginlandi Evrópu þar sem fjarlægðin gerir aðstæður krefjandi. Margir Íslendingar þekkja Kanaríeyjar vel af eigin upplifun og myndu í fyrstu ekki telja Ísland og Kanaríeyjar eiga nokkuð sameiginlegt eða vera sambærileg svæði. Í heildarmyndinni eiga þessar eyjar samt sem áður talsvert sameiginlegt og þá sérstaklega hvað þessi skilyrði varðar.

Kanaríeyjar eru dæmi um fámennt svæði, þó að þar búi um tvær milljónir manna, sem treysta á flug og siglingar líkt og við, sérstaklega hvað varðar vöruflutninga. Eyjarnar teljast meðal þeirra svæða sem þurfa aukinn stuðning vegna sérstakra aðstæðna sem taka þarf tillit til og heyra því undir ystu svæði ESB. Miðað við þær kringumstæður sem eiga við á þessum ystu svæðum, eins og m.a. á Kanaríeyjum, Asoreyjum, Madeira og Martinique, eru þau svæði lík Íslandi. Því má færa rök fyrir að heimfæra megi sömu heimildir á Ísland. Ef Ísland væri í Evrópusambandinu væri líklegt að við myndum heyra undir þessi ystu svæði sambandsins. Fyrir liggur ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA þar sem fram kemur að heimilt er að veita ríkisaðstoð til svæða hér á landi utan stórhöfuðborgarsvæðisins sökum erfiðra efnahagsaðstæðna. Sem dæmi má nefna Norðausturland þar sem atvinnuskilyrði og efnahagsaðstæður eru krefjandi. Þar höfum við brothættar byggðir hér á landi sérstaklega í huga.

Í frumvarpi þessu sjáum við m.a. kröfur á sjóflutning sem geta haft talsverð áhrif á vöruflutninga á sjó, flutning sem hefur talsverða þýðingu hér á landi og gæti reynst erfiðari í kjölfar umræddra breytinga. Það kemur því til álita hvort hægt sé að veita Íslandi undanþágur eða lengri aðlögunartíma í samræmi við það sem ystu svæði Evrópusambandsins njóta, enda eru aðstæður verulega sambærilegar eins og ég hef farið yfir, t.d. á reglum um vöruflutninga innan lands. Þau félög sem veita slíka þjónustu eru mikilvæg landsbyggðinni og stórtæk á atvinnumarkaði þar. Umrædd félög eru í sífelldri samkeppni á alþjóðamarkaði við stóra erlenda aðila sem hafa talsvert forskot nú þegar. Við megum því ekki auka það forskot án athugasemda af hálfu fulltrúa Íslands í milliríkjavinnu sem þessari því að þegar öllu er á botninn hvolft er enginn sem sinnir hagsmunagæslu okkar betur en við sjálf og því er mikilvægt að þetta sé alltaf skoðað til hlítar. Við eigum því að leita leiða til þess að gæta hagsmuna Íslands og íslensks atvinnulífs eins og best verður á kosið í þessari vinnu og finna leiðir og tillögur að mögulegum undanþágum sem stuðla að sanngirni gagnvart öllum viðkomandi aðilum.