154. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2023.

staðan á Reykjalundi.

[15:06]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Það hefur víst ekki farið fram hjá neinum að þetta er allmikið og umfangsmikið ráðuneyti sem hæstv. heilbrigðisráðherra er með í fanginu í dag. Við erum alltaf að fá nýjar og nýjar áskoranir sem við þurfum að útkljá og takast á við og sú nýjasta er Reykjalundur. Það er öflugasta og besta endurhæfingarstöð sem við eigum. Reykjalundur var settur á laggirnar 1938 af Sambandi íslenskra berklasjúklinga, skammstafað SÍBS, í kjölfarið á miklum berklafaraldri sem hér geisaði. Það var síðan upp úr 1960 sem fór að draga úr útbreiðslu berkla og farið að víkka út starfsemi Reykjalundar þar sem Reykjalundur fór að taka meira utan um endurhæfingu almennt, bæði hvað lýtur að sjúkraþjálfun og iðjuþjálfun. Nú eru átta svið undir. Á Reykjalundi tökum við utan um nánast hvað sem er og við vitum það, hvort sem það eru hjarta, lungu, verkir, gigt, geð eða hvaðeina annað.

Nú er svo komið að það er verið að loka deildum á Reykjalundi vegna skemmda á húsnæðinu. Um helgina var verið að loka öllum litlu einingahúsunum sem standa fyrir utan sem gera einstaklingum utan af landi kleift að sækja sér endurhæfingu á Reykjalund og um leið geta gist á staðnum. Staðan er í rauninni grafalvarleg og ég tala af reynslu. Ég var nú þarna sjálf og naut aðstoðar fyrir hálfu öðru ári síðan og þegar maður var að ganga út í sjúkraþjálfun voru fötur þar sem voru settar undir vatnsleka. Ég hef miklar áhyggjur af Reykjalundi og því mikla starfi sem þar er unnið og ég spyr því hæstv. ráðherra: Hefur hæstv. heilbrigðisráðherra málið á sínu borði með tilliti til þess að gera úrbætur og koma til móts við þann alvarleika sem við blasir á Reykjalundi í dag?