154. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2023.

aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023--2026.

511. mál
[16:51]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir góð orð og ég deili með honum þeirri skoðun hvaða áhætta blasir við gagnvart tungumálinu okkar. Ég tek undir að það er annars vegar að Íslendingar nota sjálfir íslenskuna ekki nógu mikið. Svo vil ég líka nefna þær gríðarlegu tækniframfarir sem eru að eiga sér stað þessa dagana. Við höfum ekki áður verið í þeirri stöðu að annað tungumál hafi hreinlega svona mikil áhrif á máltöku barna. Við erum að taka á þessu í þingsályktunartillögunni, bæði með því að fara í aðra máltækniáætlun og svo að hvetja til þess að íslenskan sé notuð af öllu samfélaginu. Varðandi kostnaðarmat kemur það fram í okkar gögnum að búið sé að gera ráð fyrir 1,4 milljörðum. Flestar, eða 13 af 19 aðgerðum, eru að fullu fjármagnaðar en ég get fullvissað hv. þingmann um að ég mun leggja mig 100% fram við að setja það sem upp á vantar inn í næstu fjármálaáætlun því að það er svo, virðulegi forseti, að þetta er eitt brýnasta mál samtímans vegna þess að ef við fjárfestum ekki verulega í öllu sem tengist tungumálinu okkar og menntun drögumst við hægt og rólega aftur úr.