154. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2023.

aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023--2026.

511. mál
[16:59]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er ein af þeim aðgerðum sem er búið að fjármagna út áætlunina. Varðandi samstarf við atvinnulífið og þátttöku þess þá hefur það samstarf nú þegar átt sér stað við ýmis fyrirtæki og samtök fyrirtækja, til að mynda Samtök fyrirtækja í ferðaþjónustu, vegna þess að þar er mjög hátt hlutfall innflytjenda. Það er alveg ljóst að þetta verður einhver kostnaður en þetta er líka mikil fjárfesting vegna þess að eitt af því sem við sjáum er að umræðan um ferðaþjónustuna þetta sumar hefur að mínu mati verið neikvæðari en ella, m.a. út af því að mörg ferðaþjónustufyrirtæki virða ekki þá lagalegu skyldu sem hvílir á þeim. Þegar verið er að auglýsa efni frá ferðaþjónustufyrirtækjum, hvort sem það er matseðill, af því að það er auðvitað verið að auglýsa mat, eða annað ber það samkvæmt lögum alltaf að vera á íslensku fyrst. Sú umræða tel ég að verði mun betri og þægilegri þegar ferðaþjónustan í samvinnu við okkur, þar sem ég gegni líka hlutverki ferðamálaráðherra, er búin að ná betur utan um þetta. Við megum heldur ekki gleyma því að ferðaþjónustan er auðvitað frekar ung atvinnugrein að því leytinu til að hún hefur stækkað gríðarlega mikið á síðustu tíu árum. Svar mitt er einfaldlega það að við erum í samtali og það er gríðarlegur áhugi á því að fara í þessa vinnu hjá þeim sem stýra á þessum vettvangi. Mér hefur fundist mjög ánægjulegt og gefandi að tala við forsvarsmenn og svo í framhaldinu að hrinda þessu í framkvæmd.