154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[15:56]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. formanni fjárlaganefndar fyrir sína yfirferð. Ég vil gera sérstaklega að umtalsefni skýrslu sem Ríkisendurskoðun birti um stöðu fangelsiskerfisins í gær. Þar er dregin upp mjög svört mynd af stöðu fullnustumála á Íslandi og rakið hvernig dómar eru að fyrnast og brotamenn ganga lausir án refsingar vegna skorts á fangelsisplássum. Þar er rakið hvernig öryggi og velferð bæði fanga og fangavarða er stefnt í voða með vanrækslu og vanfjármögnun ár eftir ár. Þetta er alvarlegt, virðulegur forseti, en góðu fréttirnar eru þær að Ríkisendurskoðun leggur til lausnir og gerir ýmsar tillögur að úrbótum sem fangelsismálastjóri hefur tekið vel í. Raunar er haft eftir Fangelsismálastofnun í skýrslu Ríkisendurskoðunar að stofnuninni sé ekkert að vanbúnaði að bregðast við með markvissum hætti þegar fjármagn til þess hefur verið tryggt. Þess vegna liggur beint við að spyrja hv. formann fjárlaganefndar um það. Og, nota bene, þessi skýrsla var ekki komin fram þegar nefndin kynnti tillögur sínar núna við 2. umræðu svo maður sýnir því skilning að ekki sé brugðist við skýrslunni hér. En mér finnst liggja beint við að spyrja hv. formann fjárlaganefndar: Sér hann fyrir sér að hv. fjárlaganefnd muni bregðast við, koma inn í 3. umræðu um fjárlögin með aukið fjármagn til að bregðast við þessum ábendingum sem fram koma í svartri skýrslu Ríkisendurskoðunar um fangelsismál?