154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[16:00]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hreinskiptin svör og hvet hann og aðra nefndarmenn til að kynna sér vel þessa skýrslu og bregðast við þegar líður að 3. umræðu um fjárlögin. Ég vil í seinna andsvari gera stöðu Landhelgisgæslunnar að umtalsefni. Hún er eitt af flaggskipum almannaöryggis á Íslandi. Þetta hefur birst okkur ákaflega skýrt núna í náttúruhamförunum á Reykjanesskaga þar sem Gæslan hefur verið með mönnun í samhæfingarmiðstöðinni allan sólarhringinn með þyrlur á staðarvakt, tilbúnar til aðstoðar við björgun, og með varðskip staðsett fyrir utan Grindavík. Nú hefur komið fram að á næsta ári vantar 700 millj. kr. til að Landhelgisgæslan geti haldið óbreyttri starfsemi milli ára og ég hef tekið eftir því að hér á Alþingi er uppi hávært ákall, m.a. frá þingmönnum í stjórnarmeirihluta, um að hlutverk Landhelgisgæslunnar verði að vissu leyti víkkað út og verkefni hennar aukin, t.d. með því að staðsetja eina af þyrlum Landhelgisgæslunnar á Akureyri. Það ætti að kosta um 500 millj. kr. á ári. (Forseti hringir.) Engu að síður er hér bara verið að bæta inn í fjárhag Landhelgisgæslunnar 240 milljónum. (Forseti hringir.) Það væri gott að fá smáyfirferð frá hv. formanni fjárlaganefndar um hvernig stendur á því að ekki er gripið til (Forseti hringir.) meira afgerandi aðgerða til að tryggja rekstrargrundvöll Gæslunnar til framtíðar.

(Forseti (ÁsF): Ég vek athygli hv. þingmanns á að ræðutíminn er ein mínúta.)