154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[16:03]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. formanni fjárlaganefndar fyrir framsöguna. Stýrivextir eru í dag 9,25% og meðaltal verðbólgu er 8,7%. Verðbólgan í dag er 7,9%. Hv. formaður fjárlaganefndar sagði að þetta væru aðhaldssöm fjárlög og þau drægju úr sveiflumögnun. Svo þegar maður les nefndarálit meiri hlutans, kaflann um fólksfjölgun og efnahagsforsendur, kemur fram, með leyfi forseta:

„Fólksfjölgun getur haft veruleg áhrif á efnahagsforsendur. Þetta á sérstaklega við um verðlag og hagvöxt sem hefur áhrif á ríkisfjármálin. […] Umtalsverð fjölgun varð á árinu 2022 en þá fjölgaði íbúum landsins um 3%.“

Í Evrópu er fjölgunin um 1%. Það búa 72.000 erlendir ríkisborgarar í landinu og fjölgun erlendra ríkisborgara frá fyrsta ársfjórðungi 2022 til þriðja ársfjórðungs 2023 var um 30%. Á blaðsíðunni á undan kemur síðan fram að spá um íbúðafjárfestingu dragist saman í ár og á næsta ári um 1,3% og 4,1%. Reiknað er með að íbúðafjárfesting taki við sér árið 2025 og aukist þá um 5,4% og 4,1% árið 2026. Ég get ekki lesið það öðruvísi, virðulegur forseti, en að aðaldrifkraftur verðbólgunnar sé hin gríðarlega íbúafjölgun í landinu eins og kemur fram í sjálfu nefndaráliti meiri hlutans, með leyfi forseta:

„Þegar íbúum fjölgar þetta mikið má gera ráð fyrir því að það hafi veruleg áhrif á eftirspurn eftir t.d. húsnæði, vörum og þjónustu. Með slíkri fólksfjölgun má einnig gera ráð fyrir verulegri aukningu á eftirspurn eftir opinberri þjónustu sem hefur áhrif á ríkisútgjöldin. Verði hagvöxtur ekki meiri á næsta ári en gert er ráð fyrir í nýjustu spá Hagstofu Íslands er hætt við því að hagvöxtur á mann gæti orðið neikvæður.“ (Forseti hringir.)

Það er sem sagt hætta á því að við verðum fátækari á hvern einstakling á næsta ári. (Forseti hringir.) Spurningin er þessi: Hvað er ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn að gera til að berjast gegn (Forseti hringir.) grunnorsökum verðbólgunnar? Ég sé ekki eitt einasta orð um það í þessu plaggi, ekki eitt.

(Forseti (ÁsF): Ég vil minna ræðumenn á ræðutímann.)