154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[16:11]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Þetta er mjög merkilegt fjárlagafrumvarp. Eitt af þeim verri sem ég hef séð, verð ég að segja, því miður. Sem dæmi um það þá kemur í 2. umræðu hér 4 milljarða ofáætlun á nýja Landspítalann, ég trúi því samt ekki, og 4,5 milljarða ofáætlun á greiðslum til aldraðra, sem ég trúi ekki að sé í rauninni alveg rétt, og á öryrkja líka. Það er mjög heppilegt að þarna falli einmitt niður fjárheimildir þegar það þarf að vera með aðhaldssöm fjárlög. Það býr til smásvigrúm fyrir meiri hlutann til að koma með fullt af tillögum hingað og þangað. Ég fatta ekki hvernig það eru aðhaldssöm fjárlög. Það gengur bara ekki upp. Dæmi um þetta, hvernig þetta er allt að fúnkera, er það sem kom hérna fram í andsvörum um Fangelsismálastofnun. Fyrir áramót í fyrra þá spurðum við fangelsismálastjóra: Hvernig er það nú eiginlega með fjárhagsáætlanirnar sem eru gerðar fyrir stofnunina, er þetta nægur peningur til að reka stofnunina samkvæmt lögum? Hann svaraði nei. Þá báðum við hann um fjárhagsáætlun sem við gætum fengið sem endurspeglaði lágmarksþörf miðað við lög. Við fengum þá fjárhagsáætlun. Hún var 300 milljónum hærri heldur en var gert ráð fyrir í fjárlögum. Þetta er eitt stærsta vandamálið sem við glímum við hérna á þingi. Við fáum ekki að vita hvað það kostar að framkvæma grunnþjónustu ríkisins, t.d. rekstur á fangelsum. Þar vantaði á þessu ári, við vitum það, 300 milljónir miðað við þessa áætlun frá fangelsismálastjóra.

Ég spyr: Hver fær að ákveða það að vanfjármagna þjónustu ríkisins ef ekki Alþingi? (Forseti hringir.) Af hverju vitum við ekki af því þegar fjárlög eru lögð fram og það er bent á: Það vantar peninga í þetta en við höfum bara ekki efni á því? (Forseti (ÁsF): Ég minni hv. þingmann á ræðutímann.)