154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[16:26]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni, framsögumanni nefndarálits meiri hluta, fyrir framsöguna. Það sem mig langar að spyrja um í fyrra andsvari mínu snýr að aukningu útgjalda á milli ára. Það kemur ekki fram í greinargerðinni, sýnist mér, hver hún er að nafnvirði en hér er sagt að á heildina litið hækki rammasett gjöld um 37,2 milljarða að raungildi á milli ára. Ætli nafnverðstalan sé ekki einhvers staðar í námunda við 140 milljarða, án þess að ég hafi skoðað það, frá samþykktum fjárlögum í fyrra til stöðunnar núna að þessum breytingartillögum framlögðum frá meiri hluta nefndarinnar. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvernig þessi kostnaðaraukning skiptist á milli fjárfestinga og reksturs hins opinbera, 140 milljarðar — nú er ég að skjóta á þessa tölu og væri mjög þakklátur ef hv. þingmaður hefur þá tölu á takteinum hver nafnverðsaukningin er á milli ára hvað útgjaldaaukninguna varðar. En ég er forvitinn að heyra hvort einhver greining hafi farið fram á því hvernig þessi viðbót skiptist á milli reksturs og fjárfestinga hjá hinu opinbera.