154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[17:36]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Áhugaverður inngangur að þessu andsvari. Mér þætti vænt um að hv. þingmaður kæmi með dæmi um svona þokukennd fræði hjá mér í stað þess að segja að þau séu það. Það er eitt dæmi um hvernig orðræðan er þreytandi stundum, fólk kemur með alls konar blammeringar og útskýrir ekkert nánar hvernig það kemst að þeirri niðurstöðu. Ég útskýri hins vegar mjög nákvæmlega hvernig ég kemst að þeirri niðurstöðu að það hafi ekki verið stöðugleiki undanfarna þrjá áratugi. Ástæðan fyrir því að ég tek þessa þrjá áratugi er að Sjálfstæðisflokkurinn hefur einmitt verið í fjármálaráðuneytinu í alla þessa áratugi, fyrir utan stjórnina 2009–2013. Þess vegna valdi ég þessa þrjá áratugi. Ég útskýrði það líka hvernig það koma stöðugleikatímabil af og til og hér og þar, þar sem er hægt að benda á einhverja stöðuga línu innan allra þessara sveiflna. Ég sagði það líka. Þannig að já, það var stöðugleikatímabil hérna og það var stöðugleikatímabil þarna en á milli þeirra er ólgan og vesenið, flakkið fram og til baka. Jú, það kemur heimsfaraldur, það kemur efnahagshrun o.s.frv., en það er líka einmitt út af efnahagsstefnunni, það var það sem ég var að reyna að útskýra líka, hvernig efnahagsstefnan myndar bólur sem springa síðan. Það er fyrirsjáanlegt að það koma verðbólguskot hérna af og til. Hvort það sé hægt að benda á heimsfaraldur eða offramboð í einhverjum bankaviðskiptum eða á stríð eða eitthvað svoleiðis — það eru bæði málefnalegar ástæður, vissulega, eins og faraldurinn og stríð og svoleiðis, en það eru líka ómálefnalegar ástæður eins og t.d. hrunið. Við verðum að tala um þetta í stærra samhengi í dag.