154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[17:40]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Já, ég kom inn á þetta í ræðunni. Ég skil að það sé erfitt að hlusta á klukkutíma ræðu, það er margt að fara yfir og þetta er flókið. Ísland er ríkt land og sá grunnur reddar okkur út úr öllum vanda og við vöxum með þeim auði, það er bara eðlilegt. Það er að sjálfsögðu ekkert sjálfsagt ef við nýtum ekki tækifærin en við höfum blessunarlega séð gert það á þó nokkuð góðan hátt, alveg tvímælalaust. Það sem ég er að benda á er samt þetta flökt. Það er ekki stöðugleiki. Flöktið er ekki stöðugleiki. Þó að langtímaþróunin sé upp á við, af því að við erum ríkt land, þá er mjög óþægilegt þegar við hoppum fram og til baka milli ára. Við erum svona ákveðin gullgrafaraþjóð, við hoppum á eftir öllum gróðatækifærum sem við komumst í tæri við — síldin, álið, bankarnir — og við förum eins djúpt í gróðann og við getum gjörsamlega ímyndað okkur og förum yfirleitt flatt á því í kjölfarið. Það eru tímabil þar sem allir eru að sukka og svo er þynnkutímabil. Þetta er óstöðugleikinn sem við erum að glíma við. Ekki það að alla jafna erum við auðug þjóð og njótum góðs af því. (Gripið fram í: En síðustu tíu ár?)Síðustu tíu ár hafa einkennst einmitt af því að við höfum verið að koma upp úr hruninu, mjög lágu efnahagsstigi. Það er í rauninni varla annað hægt að fara þegar efnahagur er kominn á botninn nema upp á við. Hagvöxtur er alltaf þægilegur, alltaf góður, en hvernig við dreifum honum og hvernig við vinnum úr honum getur verið mjög mismunandi og þá, eins og ég nefndi í ræðunni, þurfum við að horfa á það hvar sársaukamörkin hjá fólki liggja því að þau eru tvímælalaust til staðar. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af fólkinu sem hefur það gott, sem er meiri hluti landsmanna sem betur fer, (Forseti hringir.) en hluti fólks er í fátækt og það er grunnurinn sem við þurfum að fylgjast með.