154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[17:43]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og hann fór eins og vant er um fjárlögin víða í þeirri umræðu. Það er gríðarlega mikið undir enda snerta fjárlögin svo margt í okkar lífi. Mig langar að byrja á því að þakka fyrir það sem þingmaðurinn nefndi um velsældarvísana og hversu miklu máli það skiptir að horfa ekki bara á verga landsframleiðslu þó að ég sé sannarlega á þeirri skoðun að við þurfum að gera bæði. Aftur á móti hnaut ég aðeins um það þegar hv. þingmaður fór að tala um hvaða áhrif fjárlögin hefðu á það markmið okkar að ná niður verðbólgu. Mér fannst, ef ég skildi þingmanninn rétt, að fjárlögin skiptu kannski minna máli í því púsli heldur en ég lít á. Það er sannarlega markmið meiri hlutans og stjórnvalda að reyna að ná niður verðbólgu og að fjárlagafrumvarpið tali inn í það. Þess vegna velti ég fyrir mér út frá þessu hvort ég hafi skilið þingmanninn rétt og er þá með þessa spurningu: Ef við værum nú að fara í veruleg útgjöld í þessu frumvarpi myndi það ekki að mati þingmannsins hafa veruleg neikvæð áhrif á þá vegferð sem við erum í við að reyna að ná verðbólgunni niður? Og síðan langar mig líka að spyrja þingmanninn um það sem hann ræddi töluvert, þ.e. hvernig við eigum að nálgast fjárlögin og hvernig við getum fengið grunnupplýsingar eða betri upplýsingar til að taka ákvarðanir á þingi, og hann nefndi m.a. að við værum jafnvel að ljúga að fólkinu í landinu. Og ég tek því auðvitað mjög alvarlega og vil því biðja þingmanninn um að nefna einhver dæmi þess í seinna andsvari.