154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[17:45]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Ég bendi einmitt á umsögn Seðlabanka, þ.e. það sem ég hef heyrt koma frá seðlabankastjóra um að fjárlögin væru hlutlaus. Ef við horfum bara á fjárlög þessa árs þá var nákvæmlega sami söngur í rauninni á bak við þau fjárlög, 2023, og fyrir árið 2024. Samt er verðbólgan á þessu ári hærri heldur en var spáð fyrir þetta ár, þrátt fyrir fjárlög ríkisstjórnarinnar 2023 sem áttu að slá á verðbólguna. Það mistókst greinilega, þrátt fyrir enn þá meiri hækkanir á stýrivöxtum meira að segja. Ef ríkisfjármálin hafa einhver áhrif á efnahagsþróunina þá er síðasta fjárlagafrumvarp klárt dæmi um að það hafi mistekist. Það frumvarp var ekki sagt hjálpa til að sögn Seðlabankans sem er skilinn dálítið einn eftir í að nota stýrivaxtatækið sem er gríðarlega eyðileggjandi. Þegar seðlabankastjóri segir síðan það sama um þetta frumvarp eða alla vega segir að það sé hlutlaust, af hverju ætti ég ekki að trúa seðlabankastjóra hvað það varðar? Varðandi dæmin um markmiðin þá fjallaði ég einmitt mikið um viðmiðin um þjónustu flugvélar Landhelgisgæslunnar sem eru sett. 95% af tímanum á flugvélin að geta sinnt útköllum innan sex tíma. Það er svona langtímamarkmið. Við höfum farið niður á við, ég held að við séum í 35% núna eða jafnvel neðar. Það er dæmi um það sem meiri hlutinn samþykkir í fjármálaáætlun og vill að gerist til lengri tíma en gerist síðan ekki. Er þá verið að ljúga að meiri hlutanum sem samþykkti bæði fjárheimildina og markmiðið? (Forseti hringir.) Hver er þá að ljúga að meiri hlutanum eða að þjóðinni?