154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[17:47]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek því alvarlega ef það er verið að ýja að því hér að þingmenn séu að ljúga að þjóðinni. Það er alla vega ekki eitthvað sem ég hef orðið var við. Auðvitað er eðli málsins samkvæmt verið að glíma við alls kyns áskoranir. Landhelgisgæslan er partur af því og auðvitað er allt okkar kerfi partur af því. Það verða breytingar, ýmsar breytingar sem þarf að takast á við og við tökum að sjálfsögðu alvarlega þær upplýsingar sem við fáum, hvort sem þær eru um Landhelgisgæsluna eða aðra þætti í samfélaginu sem við megum gera betur í. Mér finnst samt kannski grundvallaratriðið vera að það er stór munur á því að bregðast við breyttum aðstæðum stofnana um þjónustu eða að ætla einhverjum að það sé markvisst verið að setja eitthvert sjónarspil í gang. Ég held að svo sé ekki. Ég get samt tekið undir með hv. þingmanni að við megum að sjálfsögðu vera með betri áætlanagerð og ég held að við eigum að standa okkur vel í því. Ég hef velt fyrir mér hvort við ættum t.d. að vera með lengri fjármálaáætlun. Hún á að vera, held ég, skemmst til fimm ára en má vera til lengri tíma, sem dæmi, og ég efast ekki um að þingmaðurinn taki undir það með mér. En mig langar að koma með eina spurningu og nýta tækifærið og spyrja aðeins um eitt af helstu baráttumálum Pírata, sem eru borgaralaun. Þingmaðurinn nefndi það að við værum með einhvers konar borgaralaun nú þegar. Það væri ágætt að fá útskýringar á því vegna þess að það eru vissulega skiptar skoðanir um borgaralaun. Hann nefndi persónuafsláttinn ef ég man rétt þannig að útskýring á því væri vissulega til góðs.