154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[17:49]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi er markmiðssetningin varðandi Landhelgisgæsluna rosalega gott dæmi um það hvernig aðstæður breytast ekki hjá stofnunum út af einhverjum áföllum o.s.frv. Sama markmið hafði í rauninni verið sett ár eftir ár í nýrri og nýrri fjármálaáætlun. Alltaf var markmiðið að eftir fjögur, fimm ár væri komið upp í 95% viðbragðsgetu sem raungerðist síðan aldrei. Staðan 2018 var orðin verri 2019 og verri 2020, hún versnaði alltaf. Það segir okkur að þrátt fyrir að stjórnvöld væru að gera áætlanir um þessa miklu betrumbót í þjónustu varð staðan verri. Enginn spyr: Bíddu, fyrirgefðu, af hverju er staðan að verða verri? Er það af því að það vantar fjármagn eða hvað er það? Það var ekkert katastrófískt að gerast sem gerði það að verkum að Landhelgisgæslan gat ekki sinnt og náð þeim markmiðum sem stefnt var að. Hún hafði náttúrlega ekki bolmagn til þess vegna skorts á fjárheimildum, það var ekkert flóknara en það þegar allt kemur til alls.

Varðandi borgaralaunin þá er skilyrðislaus grunnframfærsla annað nafn á borgaralaunum. Persónuafsláttur er á þann hátt allt það nema hann er ekki greiðsla til fólks af því að við greiðum hann ekki út. Hann er tekinn í mínus á móti skatti á tekjur sem fólk aflar sér. Ef við hugsum okkur að þú fáir 50.000 kr. í hverjum mánuði í persónuafslátt og svo færðu 100.000 kr. í skattheimtu, þá ertu í rauninni að borga 50.000 kr. í skatt. Persónuafslátturinn er skilyrðislaus, að vísu þarftu að hafa tekjur á móti. Hugsunin um skilyrðislausa grunnframfærslu er sú sama einmitt eins og þegar þú færð barnabætur sama hvað þú ert með í tekjur, þú færð örorkubætur sama hvað þú ert með í tekjur. Í staðinn fyrir að vera með sérstakan húsnæðisstuðning, barnabætur o.s.frv., þá setur þú þetta bara í eina tölu. (Forseti hringir.) Þú færð þessa grunnframfærslu, sama hvað þú ert með í tekjur. (Forseti hringir.) Svo virkar skattkerfið bara út frá því. Ég vona að þetta útskýri eitthvað, ég hafði ekki meiri tíma en þetta, fyrirgefið.