154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[17:52]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf):

Virðulegur forseti. Ísland er ríkt land. Við erum sjötta ríkasta land innan Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, og búum við ótrúleg auðæfi. Við búum við auðlindahagkerfi, gjöfulustu fiskimið í heimi, hreina orku og gríðarlega fallegt land. Megintekjur íslensks samfélags eru af þessu þrennu, fiskveiðum, orku í gegnum álverin og eitt stærsta hitaveitukerfi heims bætir líka lífskjör okkar, ég held að Reykjavík sé með annað stærsta hitaveitukerfi heims, og síðan stórkostlegu ferðamannalandi. Það er hins vegar skiptingin sem er ákveðið vandamál. Það eru mörg teikn þess að það sé að verða aukin tekjuskipting í landinu. Hún er bara að aukast. Á næsta ári, eins og segir í meirihlutaáliti fjárlaganefndar, er útlit fyrir það jafnvel að hagvöxtur á mann verði neikvæður. Það þýðir að framleiðsla í landinu á hvern einstakling verður minni á næsta ári heldur en á þessu ári. Framleiðni á mann er að minnka sem þýðir það að við erum að verða fátækari á einstakling. Það er ekki gott mál.

Við búum líka við þenslu, það er mikill hagvöxtur og þensla. Það kom um 100 milljörðum kr. meira í ríkiskassann á þessu ári, eða mun koma á þessu ári, því er ekki enn lokið, en gert var ráð fyrir. ASÍ sagði í umsögn sinni, og vitnaði þá til umsagnar sinnar um fjármálaáætlun í vor, að tekjur ríkissjóðs bæru vitni um það að það er þensla í landinu, mikill hagvöxtur, og ef það kæmi kreppa væri ríkissjóður Íslands í stórkostlegum vanda. Það væri mjög erfitt að bregðast við þeim vanda. Fjármálaráðuneytið lítur svo á að ríkissjóður Íslands eigi við ákveðinn útgjaldavanda að etja, þetta sé ekki tekjuvandi. Við höfum líka heyrt það að skatthlutfall Íslands af vergri landsframleiðslu sé það hæsta innan OECD, Efnahags- og framfarastofnunarinnar. Ég er ósammála því, a.m.k. úti í heimi er það kynnt þannig að Ísland sé með lægsta skatthlutfall í heimi af vergri landsframleiðslu. Ég veit þetta með lífeyrissjóðina, þeir setja okkur í hæsta flokk, en það má líka líta á útgjöld ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu, líta á útgjöldin sérstaklega.

Það sem er að gerast í landinu er að í dag erum við með 8,7% verðbólgu að meðaltali. Það er útlit fyrir að það verði 8,7% verðbólga í ár og í dag er hún 7,9%. Það er ekki að sjá merki þess í fjárlagafrumvarpi þessarar ríkisstjórnar eða í breytingartillögum meiri hlutans að við séum að taka á rótum vandans varðandi verðbólguna. Við erum ekki að gera það. Við erum með 9,25% stýrivexti, eina hæstu vexti — og ekki eina hæstu vexti, þetta eru hæstu vextir í vestrænu samfélagi. Ég veit bara um eitt ríki sem er með hærri stýrivexti í Evrópu, það er Rússland ef við getum talið það land með Evrópu í dag, þeir eru með 12% eða 13% eða hvort þeir eru komnir í 15%. En við erum með 9,25% stýrivexti og við erum ekki að ná tökum á verðbólgunni. Á vaxtaákvörðunardegi Seðlabankans kom fram að ein ástæðan fyrir því að stýrivextir voru ekki hækkaðir aftur væri óvissan vegna ástandsins á Reykjanesi, í Grindavík, annars hefðu vextir hækkað. Þessar stýrivaxtahækkanir eru að gera það að verkum að venjulegt fólk í landinu sem er með húsnæðislán er að kikna undan því eða mun kikna undan því þegar þessi snjóhengja fellur á það. Þeir sem eru með bundna vexti bíða eftir næstu vaxtahækkun og munu þá sennilega þurfa að selja ofan sér þakið eða lenda í hundruð þúsunda tekjurýrnun í hverjum mánuði vegna þess að megnið af tekjum þeirra fer í að greiða afborganir af lánum.

Og hver er orsökin að þessari verðbólgu? Jú, það voru prentaðir peningar eftir hrun, það voru prentaðir peningar í Covid og það eykur peningamagnið í umferð sem eykur verðbólgu. Það er stríð í Úkraínu sem hefur hækkað raforkuverð, orkuverð sem hefur reyndar ekki áhrif hér. En við á Íslandi með 9,25% stýrivexti höfum ekki náð tökum á verðbólgunni. Í Noregi sem er auðugt ríki líka af olíu og gasi er búið að ná tökum á verðbólgunni, með 4,25% vexti. Af hverju ætli það sé? Jú, ég vil meina að það sé vegna þess að samsetning skulda á Íslandi er allt önnur en í Noregi. Húsnæðislán í Noregi eru 97–98% á breytilegum vöxtum. Þegar seðlabanki Noregs hækkar stýrivexti þá hækka húsnæðislánin líka. Á Íslandi er þessu ekki þannig farið. Það eru sennilega 50% húsnæðislána á Íslandi verðtryggð og stýrivextir hafa ekki áhrif á verðtrygginguna. 10% verðbólga, 10% hækkun á höfuðstól húsnæðislána. Líka öll þessi bundnu lán, þetta hefur ekki áhrif á þau fyrr en það kemur nýr ákvörðunardagur vaxta og með húsnæðislán sem eru bundin til þriggja ára, fjögurra ára, fimm ára, tíu ára, þarf að bíða eftir vaxtaákvörðunardegi. Það er ákveðinn tímamunur, það tekur ákveðinn tíma fyrir stýrivextina að hafa áhrif.

Það sem er alveg kristaltært eftir að hafa lesið fjárlagafrumvarpið sem var lagt fram í haust og nefndarálit meiri hluta fjárlaganefndar er að það er ekki verið að beita ríkisfjármálunum í baráttunni gegn verðbólgunni. Það er ekki verið að gera það. Önnur ríki hafa gert það, eins og Spánn, þau hafa beitt ríkisfjármálunum til þess að ná niður verðbólgunni og það gerist strax. Hvernig er hægt að gera það? Jú, það er hægt að draga úr útgjöldum til að draga úr þenslu og það er hægt að hækka skatta til að draga úr þenslu, taka peninga úr umferð, jafnvel til að greiða niður skuldir. Það eru tvær leiðir og það er einfalt mál, þ.e. að draga úr útgjöldum og hækka skatta. Þá geturðu náð niður verðbólgunni. Svo einfalt er það.

Stýrivextir eru vextir fyrir aðra banka. Þeir geta valið milli þess að leggja féð inn í Seðlabankann og fengið 9,25% vexti eða lánað peninginn til húsnæðiskaupenda eða fyrirtækja á hærri vöxtum, það er þá 9,25% plús vaxtamunur sem er óeðlilega hár á Íslandi vegna samkeppnisleysis og skrýtins fjármálamarkaðar. Þannig er það.

Það sem er að gerast núna á Íslandi og það sem keyrir áfram verðbólguna á Íslandi er stórkostleg eftirspurn. Það er hin mikla fólksfjölgun. Um þetta fjallar nefndarálit meiri hlutans m.a. í kaflanum um efnahagsforsendur og síðan aftur í kaflanum um fólksfjölgun og efnahagsforsendur. Þar segir, með leyfi forseta:

„Fólksfjölgun getur haft veruleg áhrif á efnahagsforsendur. Þetta á sérstaklega við um verðlag og hagvöxt sem hefur áhrif á ríkisfjármálin. Á undanförnum misserum hefur fólksfjölgun á Íslandi verið verulega yfir spám Hagstofu Íslands. Umtalsverð fjölgun varð á árinu 2022 en þá fjölgaði íbúum landsins um 3%.“

Fólksfjölgun í Evrópu er 1% eða fólksfækkun. Á Íslandi eru 72.000 erlendir ríkisborgarar sem eru um 18% af heildaríbúafjölda landsins. Fjölgun erlendra ríkisborgara á ársfjórðungi 2022 til þriðja ársfjórðungs 2023 var um 30%. Svo segir hér, með leyfi forseta:

„Ef þessi fólksfjölgun heldur áfram inn á næsta ár má reikna með að fólksfjölgun 2024 verði áfram veruleg. Þegar íbúum fjölgar þetta mikið má gera ráð fyrir því að það hafi veruleg áhrif á eftirspurn eftir t.d. húsnæði, vörum og þjónustu. Með slíkri fólksfjölgun má einnig gera ráð fyrir verulegri aukningu á eftirspurn eftir opinberri þjónustu sem hefur áhrif á ríkisútgjöldin. Verði hagvöxtur ekki meiri á næsta ári en gert er ráð fyrir í nýjustu spá Hagstofu Íslands er hætt við því að hagvöxtur á mann gæti orðið neikvæður.“

Svo kemur líka fram í nefndaráliti meiri hlutans að íbúðafjárfesting muni dragast saman í ár og á næsta ári um 1,3–4,1% og þar segir: „Reiknað er með að íbúðafjárfesting taki við sér árið 2025 og aukist þá um 5,4% og 4,1% árið 2026.“

Sem sagt, íbúðarfjárfesting er að minnka á þessu ári og næsta ári og viti menn, okkur fjölgar um 1.000 manns á mánuði. Er einhver hissa á því að íbúðaverð hækki á Íslandi? Eftirspurn eftir húsnæði er að aukast stórlega.

Á síðustu 12 mánuðum hefur íbúum Íslands fjölgað um 1.000 manns á mánuði. Allt þetta fólk þarf á húsnæði að halda. Við erum að minnka fjárfestingar í íbúðarhúsnæði. Svo er einhver hissa á því að það sé verðbólga. Hvernig á skólakerfi landsmanna, sjúkrahús og innviðir samfélags að geta ráðið við þetta þegar það er aðhald á mörgum þessum liðum? Hvernig ætti að ná tökum á þessu? Við erum ekki að ná tökum á verðbólgunni, við erum að festast í þrálátri verðbólgu sem er 8,7% í ár og í dag er hún 7,9%. Spáin fyrir næsta ár er 5,6% í uppfærðri spá, 5,6% verðbólga. Það er mjög líklegt að hún verði jafnvel í kringum 7%, stýrivextir eru ekki að fara að lækka. Seðlabankinn sagði í síðustu viku að ástæða þess að hann hækkaði ekki stýrivexti væri óvissan á Reykjanesi. Hvaða áhrif hefur þetta á lántakendur húsnæðislána? Þeir munu ekki ráða við að borga af húsnæðislánum sínum. Íbúðamarkaðurinn er frosinn. Það er ekki verið að framleiða fleiri íbúðir, það er verið að framleiða færri íbúðir.

Það er útlit fyrir að fólksfjölgunin muni halda áfram á næsta ári. Hvernig stendur á því? Jú, það er út af drifkrafti í ferðaþjónustunni, sem er mjög góður, það er mjög gott að við búum við þessa stórkostlegu atvinnugrein en það þarf líka að ná böndum á verðbólgunni. Ég bendi á að ferðaþjónustan býr við 11% virðisaukaskatt. Aðrar greinar búa við 24% virðisaukaskatt. Þetta hefur verið kallað niðurgreiðsla á skatti til einnar atvinnugreinar af sumum í þessum þingsal, ekki flokksmönnum míns flokks, en það er það. Ég tek alveg heils hugar undir það.

Og svo er gistináttagjaldið. Jú, það á að vera 300 kall nóttin á dvalargest. Það eru þrír flokkar þar undir. Það eru tjaldstæði og húsbílar, það eru skemmtiferðaskip og það eru hótel. Þannig að einstaklingur sem fer með svefnpokann sinn á tjaldstæði borgar kannski 3.000 kr., 2.000–3.000 kr. fyrir tjaldstæðið. Hann þarf að borga 300 kr. fyrir nóttina í gistináttaskatt. Annar einstaklingur sem fer á fimm stjörnu hótel borgar kannski 50.000–60.000 kr. fyrir nóttina. Hann borgar líka 300 kall á nóttina. Svona skattlagning eins og er í frumvarpi um breytingu á lögum um gistináttaskatt er náttúrlega þannig að maður áttar sig ekki á því hvað er í gangi. Þorir stjórnarmeirihlutinn virkilega ekki að skattleggja þessa atvinnugrein með réttlátum hætti? Þetta er atvinnugrein sem hefur leitt til gríðarlegrar fjölgunar fólks í landinu út af skorti á vinnuafli, það er láglaunafólk sem er að koma hingað til lands til að vinna í þessari mikilvægu atvinnugrein og hún er með lægri skattprósentu og við erum hluti af 500 milljón manna vinnumarkaði.

Frumvarp ríkisstjórnarinnar til fjárlaga fyrir árið 2024 svarar í engu ákalli þjóðarinnar um raunverulegar aðgerðir í baráttunni við verðbólguna. Sú verðbólga sem við nú glímum við varð til í kjölfar óábyrgrar efnahagsstjórnar sitjandi ríkisstjórnar á síðasta kjörtímabili auk utanaðkomandi áhrifa. Verðbólgan hefur aðeins vaxið og reynst langvinnari en helstu greiningaraðilar gerðu ráð fyrir, enda var ekki búist við aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar. Heimilisbókhald landsmanna versnar um hver mánaðamót og ævisparnaður fólks brennur upp á báli vaxta og verðbóta. Á sama tíma yppta ráðherrar öxlum yfir ástandinu og setja ábyrgðina á millitekju- og láglaunafólk, sem dirfðust að gera kröfu um að lægstu laun rýrnuðu ekki að raungildi við gerð kjarasamninga síðastliðið vor.

Það er eina hættan. Það má ekki hækka laun launafólks, þá fer verðbólgan úr böndunum. Launafólkið ber ábyrgð á þessu, launafólkið sem er að borga af húsnæðislánum sínum sem eru að hækka um hundruð þúsunda. Stýrivextir 9,25% og ríkisfjármálin gera nákvæmlega ekki neitt. Allir sem hafa lesið grundvallarbók í hagfræði, 101 hagfræði, Macroeconomics eftir Mankiw, um þjóðhagfræði, framboð og eftirspurn, þeir skilja þetta, allir. Hvernig geturðu barist gegn verðbólgunni? Jú, með peningamálastefnu seðlabanka, taka peninga úr umferð með stýrivöxtum og með ríkisfjármálum, „fiscal policy“. Hún er ekki til í þessu fjárlagafrumvarpi, ekki einn stafur um það raunverulega, algjörlega stjórnlaust. Minnir á menntamálin nánast.

Allir eru sammála um að ná tökum á verðbólgunni, en ríkisstjórnin virðist ætla að fórna fátækari helmingi þjóðarinnar á báli vaxta og verðtryggingar í stað þess að berjast gegn grunnorsökum verðbólgunnar. Furðulegt er að heyra ráðherra og þingmenn ríkisstjórnarflokkanna viðurkenna að fólksfjölgun leiði eðlilega til aukinnar eftirspurnar eftir opinberri þjónustu, en gera jafnframt engar ráðstafanir til að tryggja að fjárveitingar séu í samræmi við fólksfjölgun. Á Íslandi búa um 400.000 manns, sem er aukning um 50.000 manns frá upphafi árs 2018, þ.e. síðustu fimm ár. Tal ríkisstjórnarflokkanna um stóraukin útgjöld til heilbrigðismála gufar upp í þessu samhengi. Sama á við þegar litið er til menntamála, löggæslu, félagsmála eða annarrar opinberrar þjónustu sem þarf að þróast í takt við mannfjölda.

Við getum ekki haft ríkisútgjöld miðað við 350.000 manns þegar við erum orðin 400.000, það er ekki hægt. Skólarnir verða að geta tekið á móti fleira fólki, við þurfum meira húsnæði, ekki að minnka fjárfestingar í húsnæði, og við þurfum betra heilbrigðiskerfi til að sjá um 400.000 manns, ekki 350.000 manns.

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur undanfarin ár fagnað því að afkoma ríkissjóðs hafi batnað frá því sem fjárlög gerðu ráð fyrir. Bætt afkoma ríkissjóðs er ekki til komin vegna efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar heldur vegna fjölgunar ferðamanna til landsins. Ferðaþjónustan, sem er helsti drifkraftur fólksfjölgunar undanfarinna ára, hefur skilað auknum skatttekjum til ríkissjóðs. Að bregðast ekki við mestu fólksfjölgun í sögu þjóðarinnar getur ekki skrifast á annað en stefnuleysi, algjört stefnuleysi. Þetta stefnuleysi er aðalorsök þeirrar þrálátu verðbólgu sem við glímum nú við. Fólksfjölgunin er einn helsti drifkraftur verðbólgunnar. Fólksfjölgun fylgja vaxtarverkir og það er hlutverk ríkisins að tryggja að við höldum okkar lífsgæðum þrátt fyrir þessa þróun. Álagið sem fylgir þessari fólksfjölgun á sér margar birtingarmyndir. Helsta birtingarmyndin er áframhaldandi hækkun fasteignaverðs, þrátt fyrir háa stýrivexti. Þá er gríðarleg aukning í álagi á heilbrigðiskerfi og bráðamóttöku Landspítala. Útköllum fjölgar hjá lögreglu og öðrum viðbragðsaðilum. Umferðarþungi hefur aukist verulega á höfuðborgarsvæðinu sem dregur úr lífsgæðum og framleiðni og ekki á það bætandi Aðeins er hægt að innrita 60 nemendur í læknanám á ári en vegna fólksfjölgunar er þörf á 90 nýútskrifuðum læknum á ári.

Rekja má hluta fólksfjölgunar síðustu ára til veldisvaxtar umsókna um alþjóðlega vernd. Við höfum vitað af ágöllum í verndarkerfinu sem hafa verið aðdráttarafl fyrir hælisleitendur til að sækja um vernd á Íslandi. Lagaramminn um alþjóðlega vernd hefur verið rýmri en í nágrannalöndum okkar. Auk þess tóku stjórnvöld þá ákvörðun árið 2018 að veita ríkisborgurum Venesúela svokallaða viðbótarvernd. Dómsmálaráðuneytið samdi árið 2019 frumvarp til að leiðrétta ágalla á löggjöfinni en vegna innbyrðis ágreinings stjórnarflokkanna afgreiddi Alþingi ekki frumvarpið fyrr en síðasta vor. Kærunefnd útlendingamála hafði þá úrskurðað um viðbótarvernd til íbúa Venesúela vegna efnahagsástandsins í landinu. Leiddi það til þess að smáríkið Ísland, ásamt Þýskalandi og Spáni, tók á móti mestum fjölda íbúa frá Venesúela í Evrópu. Í Þýskalandi búa 82 eða 83 milljónir manna og ég held að á Spáni búi um 45 milljónir manna. Á Íslandi búa tæplega 400.000. Gríðarleg fjölgun hælisleitenda hefur haft töluverð áhrif á stjórnkerfið og íslenskt efnahagslíf. Árið 2021 sóttu 875 einstaklingar um alþjóðlega vernd á Íslandi. Í fyrra, árið 2022, voru þeir 4.520. Á milli ára fjölgar einstaklingum sem sækja um alþjóðlega vernd um rúmlega 3.000, úr 875 einstaklingum í 4.520. Í samanburði við Norðurlöndin tók Íslandi á síðasta ári á móti 582 umsóknum hælisleitenda á hverja 100.000 íbúa. Hvað var þetta mikið í Svíþjóð? Tölurnar í Svíþjóð eru 133, Finnland 87, Noregur 85 og Danmörk 76. Við erum með 582 umsóknir á hverja 100.000 íbúa á meðan Skandinavía er með í kringum 80. Heildarfjöldi umsækjenda um alþjóðlega vernd á þessu ári er nú kominn í 3.758 einstaklinga miðað við 16. nóvember. Fjöldinn í árslok stefnir í 4.200–4.500 manns. Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun eru umsækjendur að ílengjast lengur í úrræðum stofnunarinnar og sveitarfélög hafa ekki getað tekið á móti eins mörgum umsækjendum og vonir stóðu til. Útlit er fyrir að kostnaður við verndarkerfið verði 30 milljarðar kr. á árunum 2023 og 2024. Þessi fólksfjölgun eykur verðbólguþrýsting.

Í Vestmannaeyjum búa 4.200 manns. Við erum að taka á móti núna í árslok 4.200–4.500 manns. Þetta fólk þarf að hýsa, veita fæði og húsnæði, fæði og klæði. Við erum að reka eins konar bæjarfélag á við Vestmannaeyjar á meðan verið er að afgreiða þessar umsóknir. Í dag bíða 1.600 manns frá Venesúela þess að vera fluttir til Venesúela af því að búið er að neita þeim um landvist. Breytingartillögu Flokks fólksins um lagabreytingu var hafnað, við þurftum að bíða eftir úrskurði kærunefndar. Þingið þorði ekki að taka á málunum og treysti því að stjórnsýslunefnd tæki á þessu máli.

Meiri hluti fjárlaganefndar viðurkennir í áliti sínu að fólksfjölgunin muni leiða til verulega aukinnar eftirspurnar sem hafi áhrif á ríkisútgjöld, en hún eykur einnig verðbólgu. Stjórnarmeirihlutinn er ekki með neinar tillögur til að draga úr þessari eftirspurn og þar með þeirri þrálátu verðbólgu sem við nú búum við. Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands um mannfjölda á þriðja ársfjórðungi þessa árs bjuggu um 72 þúsund erlendir ríkisborgarar á Íslandi sem er um 18% af heildaríbúafjölda. Fjölgun erlendra ríkisborgara frá fyrsta ársfjórðungi 2022 til þriðja ársfjórðungs 2023 var um 30%.

Hagvöxtur á hvern íbúa var neikvæður á árunum 2017–2022 og útlit er fyrir að hagvöxtur á íbúa verði neikvæður á næsta ári sem leiðir til aukinnar tekjuskiptingar.

Það sem er að gerast er að það kemur fólk til landsins, það er stórkostleg fólksfjölgun og þetta fólk mun lenda í lágtekjustörfunum. Það getur verið að einhverjir fari í hátekjustörf en það sem er að gerast hérna er að hagvöxtur á mann er að minnka og framleiðni er að minnka í landinu á mann. Hvað þýðir það? Jú, ef framleiðni minnkar verðum við fátækari. Þetta er svipað eins og við værum að slá með orfi og ljá en ekki nútímasláttuvélum. Framleiðni þýðir allt varðandi ríkidæmi þjóðar til lengri tíma litið. Við erum að taka á móti miklum fjölda fólks inn í atvinnugrein sem er lágtekjuatvinnugrein. Við getum tekið ákvörðun um að við ætlum að verða lágtekjuland. Það er ekkert mál. Ég efast ekki um að fólkið sem er að missa húsnæði sitt, menntað fólk, mun fara úr landi. Ég fór sjálfur úr landi 2011. Ég hef búið í landi þar sem er meiri kaupmáttur, það er gott að búa í öryggi og ég get alveg fjallað um það í löngu máli að þar eru ekki þessar gríðarlegu sveiflur og upphlaup og argaþras um hluti sem skipta engu máli. Fólk er bara í sínu, hugsar um bátinn sinn eða hvað sem það er. Við getum haft það miklu betra ef við höfum tekjuskiptinguna jafnari.

Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er engin markviss stefna um að beita eigi ríkisfjármálunum í baráttunni gegn verðbólgunni. Ríkisfjármálin geta gegnt mikilvægu hlutverki við að hemja verðbólgu. Það er hægt að gera með skattheimtu og niðurskurði í ríkisútgjöldum. Ríkisfjármálunum þarf að beita með markvissum hætti til að ná verðbólgunni niður. Ráðast þarf í sértækar aðgerðir til að minnka áhrif þensluvaldandi þátta í hagkerfinu. Það er ekki verið að gera það. Mjög mikilvægt er einnig að vernda viðkvæma hópa fyrir hörðustu áhrifum verðbólgunnar. Öryrkjar og ellilífeyrisþegar með lægri ráðstöfunartekjur en sem nemur lægstu launum bera ekki ábyrgð á verðbólgunni. Stýrivaxtahækkanir, aukinn húsnæðiskostnaður og dýrari matarkarfa hefur margfalt meiri áhrif á milli- og lágtekjuhópa en hátekjufólk og fjármagnseigendur.

Ferðaþjónustan hefur aldrei vaxið hraðar en nú og þrátt fyrir lækkandi tölur í kauphöllinni þá skila bankarnir tugum milljarða króna í hagnað á hverjum ársfjórðungi. Ferðaþjónustan býr við lægra virðisaukaskattsstig en aðrar greinar eða 11% virðisaukaskatt á meðan aðrar greinar greiða 24%. Tillaga ríkisstjórnarinnar um endurupptöku gistináttaskatts að fjárhæð 300 kr. á gistinótt á hvern dvalargest breytir litlu og skilar einungis 1,5 milljörðum kr. í ríkissjóð. Gera verður athugasemd við það að sá skattur skilar sveitarfélögum engum tekjum. Erfitt er að sjá hvernig verður hægt að ná markmiði laga um gistináttaskatt, um að afla tekna til að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun fjölsóttra ferðamannastaða, ef gjaldtakan er ekki meiri en svo. Mikilvægt er að hluti þessa gjalds renni til sveitarfélaganna. Mikilvægt er að allar atvinnugreinar samfélagsins, þar á meðal ferðaþjónustan, skili sanngjörnu endurgjaldi til samfélagsins.

Hvar er forgangsröðunin? Ríkisstjórnarflokkarnir hafa lagt fram breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið sem vekja upp fleiri spurningar en þær svara. Eins og tíðkast eru lagðar til ákveðnar breytingar sem miða að því að uppfæra tekjur og gjöld ríkissjóðs út frá nýjustu hagspám Hagstofunnar. Nú er gert ráð fyrir 5,6% verðbólgu á næsta ári, en við framlagningu frumvarpsins var miðað við að hún yrði 4,9%. Vegna þess eru ýmsar tölur víðs vegar í frumvarpinu uppfærðar, en athygli vekur að engar breytingar eru gerðar á fjárhæðum örorku- og ellilífeyris. Fjárhæðir örorku- og ellilífeyris eru uppfærðar árlega samkvæmt fjárlögum og skal ákvörðunin taka mið af launaþróun, þó þannig að fjárhæðir hækki aldrei minna en verðlag. Nú er útlit fyrir að fjárhæðir almannatrygginga rýrni um 0,7% miðað við uppfærðar verðlagsforsendur. Brýn þörf er á að leiðrétta þessar forsendur til samræmis við skýran texta 62. gr. laga um almannatryggingar. Meiri hluti fjárlaganefndar ætlar ekki að hreyfa við þessu og hyggst fylgja fyrirmælum fjármála- og efnahagsráðherra um að halda fjárhæðum almannatrygginga óbreyttum frá því sem lagt var til í september. Það er mjög miður. Verðbólguspáin var 4,9% en er komin í 5,6%. Það er ekki verið að hreyfa við fjárhæðum til örorku- og ellilífeyrisþega.

Barátta þjóðarinnar við fíknisjúkdóma verður erfiðari ár frá ári. Ópíóíðafaraldurinn fer vaxandi og hefur leitt til mikilla áfalla í samfélaginu. SÁÁ hafa bent á það árum saman að hið opinbera hefur ekki fjármagnað þennan þátt heilbrigðiskerfisins með viðhlítandi hætti. Þörf er á auknu fjármagni til reksturs meðferðarúrræða sem sannanlega bjarga mannslífum. Fyrir ári samþykkti Alþingi tímabundið viðbótarframlag til SÁÁ að fjárhæð 120 millj. kr. Sú fjárhæð fékkst ekki greidd úr ríkissjóði fyrr en seint í nóvember. Meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að viðbótarframlagið verði endurnýjað fyrir komandi ár, þ.e. 120 millj. kr. Það er afar mikilvægt að tryggja að sú fjárveiting renni til verkefnisins sem fyrst, en ekki eftir dúk og disk eða í nóvember á næsta ári. Vert er að benda hér á að íslenska ríkið rekur ekki sjúkrahús fyrir áfengissjúklinga og fíknisjúklinga. Það eru samtök áhugamanna, ekki ríkið. Það er samningur við ríkið hvað þetta varðar sem er vanfjármagnaður

Á sama tíma og ríkisstjórnarflokkarnir telja ekki ástæðu til að koma í veg fyrir rýrnun kaupmáttar hjá fátækustu hópum samfélagsins er eytt púðri í að afgreiða hinar ýmsu styrkbeiðnir. Meiri hluti fjárlaganefndar leggur því til að styrkja ýmis verkefni og má þar m.a. nefna 20 millj. kr. styrk vegna landsmóts hestamanna, 8 millj. kr. styrk til Klúbbs matreiðslumeistara, 18 millj. kr. styrk til Bíó Paradísar, og 17 millj. kr. styrk til kvikmyndahátíðarinnar RIFF, svo eitthvað sé nefnt. Á sama tíma þurftum við í Flokki fólksins að berjast fyrir því að blindir fengju fjárveitingu til tækjakaupa. Ég get þar að auki tekið dæmi um hagsmunafulltrúa aldraðra, það var samþykkt fyrir kosningar þingsályktun um að félagsmálaráðherra myndi skila frumvarpi fyrir haustþingið um hagsmunafulltrúa aldraðra. Það er ekki búið að gera það enn þá, hann neitar að gera það, fer ekki að vilja Alþingis hvað þetta varðar.

Þriðji minni hluti tekur þó undir ákveðnar tillögur meiri hluta fjárlaganefndar hvað varðar styrkbeiðnir. Ber þar m.a. að nefna tillögu meiri hluta fjárlaganefndar um að fella niður aðhaldskröfur á lögregluembættin, aukið framlag til að vega upp á móti hallarekstri Landhelgisgæslunnar, áðurnefnt viðbótarframlag til SÁÁ og framlög til Ljóssins, Alzheimersamtakanna, Reykjalundar og Hleinar sem dæmi. Aukin framlög til framangreindra aðila eru mikilvæg, en 3. minni hluti vekur þó athygli á að hver og einn þeirra fær umtalsvert minna fjármagn en þörf er á, ef marka má umsagnir þeirra.

Þriðji minni hluti vill fjalla sérstaklega um tillögu meiri hluta fjárlaganefndar um 35 millj. kr. framlag til kaupa á hjálpartækjum fyrir blinda og sjónskerta. Umrætt framlag var hluti af þinglokasamningum Flokks fólksins við ríkisstjórnarflokkana í desember 2022. Á vormánuðum samþykkti svo Alþingi þingsályktun þess efnis að tryggja skyldi 35 millj. kr. framlag til kaupa á hjálpartækjum á árunum 2024 og 2025 í fjármálaáætlun komandi ára. Eitthvað hefur þetta þó skolast til í kerfinu því að framlagið rataði ekki inn í fjárlagafrumvarpið, sem þó leit ekki dagsins ljós fyrr en í september, hálfu ári eftir að Alþingi samþykkti að fella það inn í fjármálaáætlun. Það er þó þakkarvert að þingheimur hafi tekið undir kröfu Flokks fólksins um þennan mikilvæga stuðning við blinda og sjónskerta.

Mig langar núna að fjalla aðeins um breytingartillögur 3. minni hluta eða Flokks fólksins. 3. minni hluti leggur til breytingartillögur við bæði gjalda- og tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins. Þær tillögur sem gerðar eru til að auka tekjur ríkissjóðs hafa það markmið að draga úr verðbólgu. Þær tillögur sem leiða til hærri útgjalda hafa það sameiginlegt að þær miða annaðhvort að því að bæta velferðarþjónustu eða draga úr hörðustu áhrifum verðbólgu. 3. minni hluti leggur auk þess til breytingar á heimildargreinum frumvarpsins.

Heildarskuldir ríkissjóðs eru áætlaðar 1.706 milljarðar kr. nú um áramótin. Útlit er fyrir að skuldir ríkissjóðs hækki um rúma 50 milljarða kr. á næsta ári. Við erum sem sagt á góðæristímum, í miklum hagvexti en skuldir ríkissjóðs eru aukast. Það er ekki gott. Skuldir ríkissjóðs eru nú 31% af vergri landsframleiðslu, skuldareglan er 30%. Ég tel að fyrir svona lítið samfélag sé þetta allt of hátt. Við eigum að ná skuldahlutfallinu enn þá lengra niður. Með því að draga úr hallarekstri má koma í veg fyrir aukna skuldasöfnun. Það er afar mikilvægt því að með auknum skuldum aukast vaxtagreiðslur ríkissjóðs en nú þegar nema vaxtagjöld ríkissjóðs 117,5 milljörðum kr. á ársgrundvelli. Við erum að borga tæplega 120 milljarða bara í vaxtagjöld. Það er allt of mikið

Verði eftirfarandi breytingartillögur samþykktar aukast tekjur ríkissjóðs um 35,9 milljarða kr. en útgjöld aukast um 19,5 milljarða kr. Breytingartillögurnar hafa því þau nettóáhrif að draga úr halla ríkissjóðs um sem nemur 16,4 milljörðum kr.

1. Hækkun bankaskatts. 3. minni hluti leggur til að sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki verði hækkaður úr 0,145% í 0,838%. Þegar bankaskatturinn var lækkaður árið 2020 átti sú breyting að skila neytendum betri vaxtakjörum og minnka vaxtamun stóru viðskiptabankanna. Annað kom á daginn. Vaxtamunur hér á landi er töluvert meiri en á hinum Norðurlöndunum. Miklar stýrivaxtahækkanir hafa leitt til stóraukins hagnaðar í bankakerfinu, sem hægt og rólega er að gleypa eigið fé landsmanna. Eigið fé landsmanna í fasteignum sínum er að hverfa í verðbólgunni, sérstaklega hjá þeim sem eru með verðtryggð lán vegna höfuðstólshækkana og verðbólguáhættu sem þeir þurfa að bera af lánum sínum. Ekki dugar að hækka bankaskattinn aftur í fyrra horf, 0,376%. Við í Flokki fólksins leggjum því til að bankaskatturinn verði hækkaður í 0,838%, sem kalla má hvalrekaálag á bankakerfið. Ég get bent á land eins og Ítalíu, Ítalir hafa lagt hvalrekaskatt á sitt bankakerfi. Í frumvarpi Flokks fólksins um hækkun bankaskatts kemur fram að skatthlutfallið verði endurskoðað þegar vextir fara aftur undir 5%. Því má segja að álagið verði eins konar hvati fyrir bankana til að lækka vexti. Þessi hækkun bankaskattsins myndi skila ríkissjóði 31 milljarði kr. í auknar tekjur, sem dugar til að fjármagna útgjaldatillögur Flokks fólksins og gott betur. Afganginn má því nýta til að greiða niður skuldir ríkissjóðs.

Hagnaður bankanna í ár verður 80 milljarðar kr. Við erum að fara fram á að ríkið taki til sín 31 milljarð kr. Í samkeppnisleysi íslensks fjármálamarkaðar og vegna samsetningar hans er augljóst mál að það verður að fara að taka til hendinni, auka samkeppnina, sjá til þess að stýravaxtamekanisminn virki og sjá til þess að við beitum ríkisfjármálunum til að ná niður verðbólgunni. Lánasafnssamsetning heimilanna er ekki rétt. Önnur ríki hafa þetta ekki svona. Önnur ríki hafa ekki verðtryggð lán. Það er kominn tími til að við hugsum um það af hverju við erum svona allt öðruvísi en allir aðrir.

2. Hækkun veiðigjalda. 3. minni hluti leggur til að veiðigjöld verði hækkuð umfram þá hækkun sem þegar er áformuð þannig að ríkissjóður fái 15 milljarða kr. á næsta ári fyrir aðgang útgerðanna að sjávarauðlindinni. Það liggur ljóst fyrir að kvótakerfið færði afmörkuðum hóp útgerðarmanna aðgang að auðlindinni fyrir nánast ekkert endurgjald. Að nafninu til á að greiða fyrir afnot sjávarauðlindarinnar, en tekjur ríkissjóðs af veiðigjaldinu duga ekki einu sinni fyrir rekstri Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar og Landhelgisgæslunnar. Þetta sýnir hvað veiðigjaldið er raunverulega lágt. Það dugar ekki til að reka eftirlitsstofnanir og öryggisstofnanir sem sjá um sjávarútveginn í íslensku stjórnkerfi. Allt eru þetta mikilvægar stofnanir þegar kemur að nýtingu sjávarauðlindarinnar og öryggi úti á hafi. Veiðigjaldið átti að tryggja þjóðinni hlutdeild í þeim hagnaði sem auðlindin skilar, en stjórnvöld gengu erinda auðmanna og því hefur veiðigjaldið aldrei samsvarað því sem ætla má að þjóðin fengi í sinn hlut ef greitt væri markaðsverð fyrir aðgang að auðlindinni.

3. SÁÁ, Hlaðgerðarkot og Krýsuvík. 3. minni hluti leggur til að auka fjárveitingar sem renna til reksturs heilbrigðisstofnana sem berjast gegn fíknisjúkdómum. SÁÁ og Krýsuvík reka starfsemi sína á grundvelli þjónustusamninga við ríkið, en brösuglega gengur að fá ríkið til að greiða fyrir þann kostnað sem fylgir því að veita þessa sjálfsögðu heilbrigðisþjónustu. Því neyðast bæði SÁÁ og Krýsuvík til að ganga á sjálfsaflafé, t.d. með álfasölu SÁÁ, sem undir eðlilegum kringumstæðum myndi frekar nýtast til uppbyggingar á þeirra góðu starfsemi en til að greiða launa- og rekstrarkostnað.

Ég hefði haldið að samningur ríkisins við þessar stofnanir, þessi félög, ætti að fara í rekstrarkostnaðinn og svo myndu þau afla sjálfsaflafjár til að fara í fjárfestingar á tækjabúnaði og húsnæðiskostnaði. Ríkið er í raun að kaupa heilbrigðisþjónustu af almannaheillafélögum á undirverði og nýtir sér góðvilja þeirra sem að baki samtökunum standa til að spara útgjöld til heilbrigðismála. Við getum þakkað drifkraftinum, eljunni og áhuganum hjá þessum áhugamannasamtökum fyrir að taka á þessum stórkostlega vanda. Ríkið er nefnilega ekki að gera það. Það er mjög mikilvægt að við stöndum á bak við þetta fólk, að Alþingi sýni stuðning í verki með fjárframlögum þannig að fólkið fari ekki að kikna undan vinnuálagi í þessum samtökum sem eru með þennan mikilvæga rekstur. Þá hefur Samhjálp óskað eftir auknum fjárveitingum til Hlaðgerðarkots svo efla megi þá starfsemi sem þar fer fram. Við í Flokki fólksins teljum fulla ástæðu til að verða við óskum SÁÁ, Hlaðgerðarkots og Krýsuvíkur. SÁÁ segir í umsögn sinni að 400 millj. kr. vanti inn í rekstrargrunninn á ársgrundvelli til þess eins að veita þá þjónustu sem þegar er gerð krafa um af hálfu Sjúkratrygginga. Það vantar sem sagt 400 millj. kr. nú þegar inn í reksturinn til að standast kröfurnar sem Sjúkratryggingar, kaupandi heilbrigðisþjónustunnar, gerir kröfu um. Hækka þarf framlag ríkisins til SÁÁ um þær 120 millj. kr. sem veittar voru um síðustu áramót, en féllu niður milli ára og jafnframt auka framlagið um 400 millj. kr. til viðbótar. Krýsuvík óskar eftir 50 millj. kr. framlagi. Samtökin hafa þegar tryggt fjármagn til stækkunar meðferðarheimilisins en stækkuninni þarf að fylgja aukið fjármagn til reksturs. Samhjálp óskar eftir 300 millj. kr. fjárveitingu vegna Hlaðgerðarkots. Við í Flokki fólksins leggjum því til að fjárheimildir hækki um 870 millj. kr. til að fjármagna með viðhlítandi hætti þá þjónustu sem SÁÁ, Hlaðgerðarkot og Krýsuvík veita, 870 millj. kr. til þessara þriggja aðila því hér er um gríðarlega mikilvæg samtök að ræða.

Ég get tekið sem dæmi að núna eru fíknisjúkdómar að aukast, það er ópíóíðaneysla, áfengisneysla er að aukast. Í dag, meðan ég er að tala núna, er verið að selja áfengi ólöglega í fjarsölu á Íslandi. Þú getur keypt áfengi í gegnum netið og fengið það sent til þín á innan við hálftíma. Það er búið að vera einkaleyfi ríkisins á smásölu ríkisins á áfengi frá 1922, í 101 ár, og að ríkisvaldið skuli ekki gera neitt í þessu, löggæsluyfirvöld eða saksóknarar er með hreinum ólíkindum. Það eru hörð viðurlög við því að brjóta á þessu einkaleyfi ríkisins, allt að sex ára fangelsi og upptaka á öllum tækjabúnaði og hagnaði. Ríkið er ekki að gera neitt. Ég er með fyrirspurn til dómsmálaráðherra frá 28. september síðastliðnum sem ég er ekki búinn að fá svar við enn þá. Það var hæstaréttardómur í Svíþjóð sem fjallaði um mjög svipað mál. Dómarinn í Svíþjóð sagði að þetta væri leyfilegt. Af hverju? Af því að lagerinn var í Danmörku og vöruafhendingin var í Danmörku. Lagerinn er hérna á Íslandi og vöruafhendingin er á Íslandi. Ólögleg smásala. Hver er skilgreiningin á smásölu? Það er náttúrlega að vöruafhendingin sé á Íslandi. Það geta allir keypt sér áfengi úti í heimi og farið í gegnum rauða hliðið, þú getur líka pantað í pósti. Póstafgreiðsla er gömul hér á Íslandi, t.d. meðal bænda á Íslandi, hringt í síma. Það að kaupa í smásölu í gegnum skjá er ekkert nýtt. Bændur gerðu þetta meira að segja í gegnum sveitasímann í gamla daga.

4. Örorku- og ellilífeyrir almannatrygginga. Eins og áður segir þá er boðað í fjárlagafrumvarpinu að lífeyrir almannatrygginga skuli hækka um 4,9% næstu áramót. Bæði ÖBÍ réttindasamtök og Landssamband eldri borgara telja þessa uppfærslu fara í bága við 62. gr. laga um almannatryggingar. ÖBÍ hefur lagt áherslu á að uppfærslan verði 12,4% milli ára, sem samsvarar hækkun matarkörfunnar á liðnu ári. Undir það má taka, enda hefur hækkun matvælaverðs umtalsvert meiri áhrif á fjárhag lágtekjufólks, sem ver nær öllum sínum tekjum í algjörar nauðsynjar, þ.e. fæði, klæði og húsnæði. Grunnframfærsla almannatrygginga er tugum prósenta lægri en lágmarkslaun, sökum þeirrar kjaragliðnunar sem hefur átt sér stað undanfarna áratugi. 3. minni hluti leggur því til að fjárheimildir málefnasviða 27 og 28 verði hækkaðar svo að tryggja megi að grunnframfærsla almannatrygginga hækki um 12,4%.

Vaxtabætur. Lagt er til að tvöfalda framlag ríkisins til vaxtabóta. Heimili landsins róa nú lífróður vegna hins gríðarlega háa vaxtastigs í landinu og nú stefnir í að fjölskyldur í þúsundatali muni missa heimili sín á næstu misserum vegna síhækkandi afborgana. Markmiðið með breytingunni er að fleiri fjölskyldur og einstaklingar fái greiddar vaxtabætur á næsta ári og að vaxtabætur verði hækkaðar frá því sem nú er, sérstaklega til þeirra sem verða verst fyrir barðinu á háu vaxtastigi og eru í hættu á að missa húsnæði sitt. Hið gríðarlega háa vaxtastig með 9,25% stýrivöxtum hefur ekki borið árangur í baráttunni gegn verðbólgu. Af hverju er það? Jú, ríkisfjármálin. Er ástæða til að líta til samsetningar húsnæðislána þar sem stór hluti er verðtryggður og með bundna vexti til lengri tíma sem dregur úr virkni stýrivaxta. Þessi tillaga miðar að því að tryggja að fjölskyldur í landinu missi ekki húsnæði sitt í stórum stíl. Tvöföldun framlags til vaxtabóta er hófleg í samhengi við vaxtakostnað sem hefur hækkað gríðarlega síðustu misseri. Ef stjórnvöld eiga einhvern tíma að grípa inn í og reisa skjaldborg um fjölskyldurnar í landinu þá er það núna. Ekki eru nema fimmtán ár síðan að heimili landsmanna voru brennd á báli verðbólgu og okurvaxta í hruninu í október 2008. Sagan ætti að vera búin að kenna okkur nauðsyn þess að stjórnvöld standi í fæturna og geri það sem þeim ber að gera til að verja fjölskyldur í landinu og samfélagið í heild sinni, einu ríkasta samfélagi heims.

5. Heimildir til frekari bankasölu felldar brott. 3. minni hluti leggur til að felldar verði brott úr 5. gr. frumvarpsins heimildir til sölu á eftirstandandi hlut ríkisins í Íslandsbanka, 30% hlut ríkisins í Landsbankanum og hlutafé ríkisins í Sparisjóði Austurlands. Sitjandi ríkisstjórn hefur tvívegis ráðist í sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka með vægast sagt dræmum árangri. Annars vegar í hlutafjárútboði sumarið 2021 þar sem 35% hlutur ríkisins var boðinn út á verði sem reyndist langt undir markaðsvirði. Hins vegar með hinni dæmalausu tilboðssölu á 22,5% hlut ríkisins en í því söluferli braut fjármála- og efnahagsráðherra stjórnsýslulög og fleiri lög, m.a. um sölu eignarhluta ríkisins í fjármálastofnunum, hina frægu 3. gr., meginregluna, og Íslandsbanki, sem annaðist sölu á eigin bréfum, gerði samkomulag við Fjármálaeftirlitið um greiðslu sektar að fjárhæð 1,2 milljarðar kr. vegna ýmissa alvarlegra annmarka við söluna, þar á meðal þess annmarka að starfsmenn sem sáu um söluna voru að selja sjálfum sér. Þessi sátt er merkileg lesning, sátt upp á 1.200 millj. kr., um áhættumenninguna og kúltúrinn innan bankans. Það var eins og lesa lýsingu á menningu sem var 2007. Það er með öllu óásættanlegt að veita ríkisstjórninni heimild til frekari sölu á hlutafé ríkisins í bönkunum sem leiddi til þessa. Þetta eru þær breytingartillögur sem 3. minni hluti er með.

Svo ég taki þetta nú aðeins betur saman þá er alveg klárt mál að þetta fjárlagafrumvarp er ekki að taka á grunnorsökum verðbólgunnar. Við erum komin í þráláta verðbólgu þar sem aðgerðir Seðlabanka Íslands hafa ekki þau áhrif sem menn héldu. Það er einfaldlega ekki þannig og það viðurkenndi seðlabankastjóri og peningastefnunefnd á síðasta fundi eiginlega. Það er áhugavert að í því samtali sem átti sér stað á þeim blaðamannafundi þá minntist seðlabankastjóri ekki einu orði á fólksfjölgunina. Við verðum að ná tökum á verðbólgu og við getum ekki búið í landi með 9,25% verðbólgu. Frá árinu 1980, fram að þjóðarsáttarsamningum, bjuggum við við 140% verðbólgu. Það var ekki fyrr en með þjóðarsáttarsamningum að við náðum tökum á verðbólgunni og við verðum að gera það núna. Við getum ekki lifað áfram núna með fjárlög sem eru þess eðlis að það er ekki verið að taka á vandanum og það að stýrivextir hækki jafnvel áfram upp í 10% gengur ekki. Það mun leiða til þess að fjölskyldur í landinu missa heimili sín og það er engin fjárfesting. Við erum ekki að taka á þessari gríðarlegu þenslu og þetta litla samfélag ræður ekki við þá fólksfjölgun sem er að eiga sér stað núna sem á sér fyrst og fremst stoð í skorti á vinnuafli. Þetta skapar álag á innviðina og við verðum að dempa þessi áhrif og skapa þær reglur í samfélaginu að allar atvinnugreinar landsins búi við sömu kjör. Ferðaþjónustan er mjög mikilvæg atvinnugrein, ný atvinnugrein og við höfum greinilega ekki náð að laga skattkerfi okkar að því að hún hefur kannski náð fullum þroska núna og það sé kominn tími til að huga að því að hún greiði sanngjarnt gjald í ríkissjóð. Ég er ekki að tala fyrir því að við leggjum þessa atvinnugrein í rúst, ekki á nokkurn einasta hátt. Þetta er mjög verðmæt atvinnugrein og við þurfum að nota hana eins og aðra tekjustofna sem byggja á auðlindum okkar til að komast inn í þekkingarsamfélagið. Það gerum við með því að mennta þjóðina, komast ofar í PISA, ekki vera tossarnir í PISA eins og kom fram í morgun, alveg ótrúlegar tölur. Ég skora á allan þingheim að kynna sér þær tölur. Við erum ekki bara með lökustu nemendurna heldur erum við með langminnstan hluta úrvalsnemenda líka. Það er bara beint niður eiginlega. Við getum ekki komist inn í þekkingarsamfélagið með 38% drengja sem geta ekki lesið sér til gagns. Það bara er ekki þannig. Það er tekjulægsti hópurinn sem er félagslega og tekjulega verst staddur í samfélaginu sem verður verst úti. Það er hópur sem við verðum að taka utan um.

Flokkur fólksins mun vera með fleiri breytingartillögur fyrir 3. umræðu sem fer væntanlega fram í næstu viku og þá skilst mér að þingmeirihlutinn muni vera með breytingartillögu varðandi Reykjanes, umbrotin þar, og varðandi bændur. Við þurfum að taka utan um bændur, ekki síst sauðfjárbændur, sem eru fátækasta stétt samfélagsins. Það er alveg með ólíkindum miðað við stöðu lambakjöts í landinu að framleiðendur lambakjöts, sem er svo sterkt í þjóðarsálinni, skuli ekki bera meira úr býtum en raun ber vitni. Það er skylda okkar að sjá til þess að þessi atvinnugrein og byggð í landinu í dreifbýli hrynji ekki vegna þess að þeir verði einfaldlega að flýja fátækt.