154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[18:47]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fínar spurningar. Vaxtamunurinn á Íslandi er mikið til vegna samsetningar kerfisins. Það er ekki samkeppni á íslenskum bankamarkaði. Það tel ég vera aðalorsökina. Ég tel að við eigum ekki að taka upp evruna vegna þess að auðlindahagkerfi á ekki vera með sama gjaldmiðil og Þýskaland eða þróuðustu iðnríki heims. Ef það kemur aflabrestur þá þurfum við að geta lækkað gengi okkar. Ef við tækjum upp dollar og það kæmi kreppa þá myndi dollarinn hækka og við yrðum að lækka vextina. Ég held að við búum við ágætissveiflujöfnun. Ég held að ástæðan fyrir því að erlendir bankar komi ekki hingað sé vegna þess hvernig kerfið okkar er byggt upp; stærð lífeyrissjóðanna, kvótaauðkýfingarnir og líka skuldasamsetningin. Varðandi markaðsverðið þá tel ég að það hafi verið krafa okkar í Flokki fólksins að allur fiskur fari á markað. Færeyingar setja þá skyldu að 35% fari á fiskmarkaði. Þar geturðu fengið markaðsverð fyrir kvótann, markaðsverð sem er tengt heimsmarkaðsverði. Í dag erum við með svokallað viðmiðunarverð þar sem útgerðarmaðurinn sem á fiskvinnslu er að selja sjálfum sér og það er ekki markaðsverð. (Forseti hringir.) Við þurfum að fá markaðsverð fyrir fiskinn svo við getum tengt það við markaðsverð á auðlindagjaldinu.