154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[18:48]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir sína ræðu þar sem hann kom víða við. Það er kannski erfitt í þessu stutta andsvari og á þessum stutta tíma sem við höfum að fara eitthvað á dýptina. En af því að hv. þingmaður fór aðeins inn á húsnæðismarkaðinn þá ætla ég að eyða mínum tíma í það. Þingmaðurinn talaði um niðurskurð til húsnæðismála. Nú eru rammasett útgjöld að hækka um 37,2 milljarða að raungildi milli ára og þar muna framlög til húsnæðismála hvað mestu, sem eru að hækka um 4,9 milljarða og endurspegla áherslu stjórnvalda á að stefna að auknu jafnvægi á húsnæðismarkaði. Mig langar að forvitnast hjá hv. þingmanni hvað það er sem hann á við þegar hann orðar hlutina með þessum hætti.