154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[18:56]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég bjóst kannski við hnitmiðaðra svari en allt í góðu. Ég veit ekki hvort þingmaðurinn hefur eitthvað misskilið fullveldið og stöðu okkar hérna á þingi. Það er alveg augljóst að það verða ekki gerðar neinar breytingar á EES-samningnum nema það fari hér í gegnum þingið. Það liggur alveg fyrir þannig að við þurfum ekki að hafa neinar áhyggjur af því. En í framhaldi af þessu, vegna þess að þingmaðurinn nefndi líka umsækjendur um alþjóðlega vernd og bar það saman við Norðurlöndin og talar um veldisvöxt í því sambandi, þá hafa vissulega margir sótt um alþjóðlega vernd hér, sérstaklega á undanförnum tveimur árum. Það skýrist að langstærstum hluta af stríðinu í Úkraínu og fólki frá Venesúela. Þess vegna vil ég benda á það varðandi upplýsingarnar sem ágætur hv. þm. Eyjólfur Ármannsson er benda á frá Norðurlöndunum að þær taka ekki umsækjendur um alþjóðlega vernd frá Úkraínu með inn í tölurnar. Þær gera það ekki. En þetta er vissulega áskorun, frú forseti. Mig langar að spyrja einnig út í það: Hvaða breytingar sér þingmaðurinn fyrir sér á útlendingalöggjöfinni til að taka á því sem hann nefnir hér í ræðu sinni?