154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[19:57]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Kristrún Frostadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég held að staðan varðandi verk- og tekjuskiptingu sveitarfélaga sé kannski stærri en svo að við fullræðum hana á einni mínútu. Það hefur ekki tekist að koma með niðurstöðu í viðkomandi nefnd um árabil. En ég held að það liggi alveg fyrir að það þarf að fara aukið fjármagn í þessi úrræði, annaðhvort með auknu svigrúmi sveitarfélaga til einhvers konar gjaldtöku, það er hámark á útsvari eins og sakir standa og það eru takmarkaðir tekjustofnar, eða það verður breytt greiðslufyrirkomulag þarna á milli. Ég veit að á Norðurlöndunum er þessu háttað með öðrum hætti. Þar er sjálfstæði sveitarfélaga minna. Ég átta mig á því. En ég held að við þurfum samt að taka þessa umræðu, hvernig við verjum best þjónustuna og taka hana alvarlega vegna þess að við vitum það öll að ef t.d. þessar gjaldskrárhækkanir ganga til baka, sem mörgum þykir vissulega æskilegt og auðvitað finnst mér það líka, þá veit líka hv. þingmaður það jafn vel og ég að afkoman hjá þessum sveitarfélögum mun ekkert líta neitt sérstaklega vel út og þau hafi eiginlega enga aðra kosti í stöðunni nema skera niður í grunnþjónustu.