154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[19:58]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin og það er alveg rétt að við þyrftum kannski meira en eina mínútu til að fullræða þetta, en ég þakka aftur fyrir. Mig langar þá að koma á öðru og það er almenna íbúðakerfið og stofnfjárframlögin sem eru að hækka, framlög til húsnæðismála eru að hækka um 4,9 milljarða á milli ára sem að mínu mati endurspeglar áherslu stjórnvalda á að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði. Ég sé að í tillögum þingmannsins er nefnt að halda inni þessari ívilnun vegna virðisaukaskatts á vinnu, sem mér finnst ekkert svo vitlaus hugmynd. En það er líka annað sem skiptir þarna máli af því að ég hef tekið eftir því úti í samfélaginu að framkvæmdaviljinn er mikill, bæði hjá þeim sem eru að byggja þessar íbúðir og íbúðir á hinum almenna markaði. Þá má sjá þegar við lítum yfir til að mynda áætlun Reykjavíkurborgar að þar erum við með íbúðir sem eru í skipulagsferli eða eru áætlaðar 2027 og 2028 og þá kemur að lóðaframboði. (Forseti hringir.) Ég hefði áhuga á að vita hvaða sýn þingmaðurinn hefur varðandi það að við getum fjölgað hér lóðum og haldið áfram að byggja upp í almenna íbúðakerfinu.