154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[20:00]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum sérstaklega fyrir ræðuna, auðvitað af mörgu að taka en mér fannst áhugavert að heyra þetta varðandi bæturnar. Ég held að við getum öll verið sammála um að það er mikilvægt að bæturnar fari þangað sem þær nýtast. Það kom mér á óvart að mér fannst verið að snúa svolítið á haus þessum orðum formanns Framsóknarflokksins. Veruleikinn er auðvitað sá að Framsókn hefur alltaf talað fyrst fyrir vinnu og svo vexti og svo velferð. Mér heyrist að hér sé formaður Samfylkingarinnar að setja bætur í fyrsta sæti. Er ekki bara veruleikinn sá að við viljum hafa jafnaðarstefnu sem virkar þannig að við jöfnum tækifæri og þeir sem hafa tækifæri ná sér upp og gengur betur og þurfa þar af leiðandi ekki á bótum að halda? Það þýðir ekki að það sé verið að tala niður bætur. Þær eiga einfaldlega að fara á rétta staði. Erum við sammála um þessa nálgun jafnaðarstefnunnar?