154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[20:51]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Með kaupmáttinn þá er það kannski ekkert óeðlilegt að það komi smáhiksti í það miðað við að hann var að aukast töluvert á Covid-árunum, sem við sáum nánast hvergi annars staðar, sem var vegna þeirra viðamiklu aðgerða sem var farið í í Covid þar sem við vildum verja þá stöðu og verja fyrirtækin til þess að komast einmitt hratt áfram þegar við kæmumst út úr Covid. Þetta hefur verið hagstjórnin. Varðandi stöðugleika vil ég segja þetta: Árin 2013–2020, á sjö ára tímaskeiði, var meðalverðbólga í landinu 2,4%. Hún fór tvisvar upp fyrir verðbólgumarkmið Seðlabankans og tvisvar undir þannig að það hefur náðst töluverður árangur varðandi það. Síðan vildi ég rétt koma inn á vaxtajöfnuðinn. Ég held að við þurfum að taka ítarlegri umræðu um vaxtajöfnuð ríkissjóðs, Við erum með 110 milljarða inni en greiddir vextir eru 58 og 34 milljarðar af þessum 110 eru verðbætur og 18,5 eru reiknaðir vextir vegna lífeyrisskuldbindinga (Forseti hringir.) og er ekki greidd heldur reiknuð stærð. Þannig að ef við tökum raunverulegar vaxtatekjur ríkisins og vaxtagjöldin sem eru greidd út þá er (Forseti hringir.) munurinn 22 milljarðar sem ég held að sé bara með því besta, ekki heimsmet held ég en með því besta sem gerist.