154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[21:53]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Jú, það er bara nákvæmlega sama og við. Ég hef verulegar áhyggjur af því að það fótfestuleysi sem einkennir viðbrögð og ákvarðanir stjórnarflokkanna og ríkisstjórnarinnar verði mögulega það flóknasta sem við mönnum muni blasa þegar kemur að því að aðilar vinnumarkaðarins setjist niður og reyni að ná samningum. Eins og ég kom inn á í ræðu minni eru það ríkisútgjöldin sem hafa verið stjórnlaus um allnokkra hríð. Það er ástandið á húsnæðismarkaðnum þar sem ríkisstjórnin og fulltrúar hennar, og sérstaklega hæstv. innviðaráðherra, mæta í hvert viðtalið á fætur öðru og virðast hafa tekið upp þá hugmynd að landsmenn geti búið í „glærusjói“ eins og borgarstjóri hefur lagt til árum saman. Þegar skilaboð stjórnvalda eru þau að hér þurfi að byggja 4.000 íbúðir á ári næstu fimm árin og niðurstaðan er 2.500 þá er það atriði sem mun spila með mjög neikvæðum hætti inn í kjarasamningana sem fram undan eru því að eins og með allt annað, með verðbólguna, með ástandið á húsnæðismarkaði, með öll þessi vandamál sem við okkur blasa, þá verður staðan alltaf hlutfallslega erfiðust og versnar mest fyrir þá sem minnst hafa milli handanna og eru í erfiðastri stöðu fyrir. Þetta er staðan sem ríkisstjórnin færir aðilum vinnumarkaðarins til að vinda ofan af og vinna út úr. Þannig að ég held að samsetningin og það hversu erfitt þeim hefur reynst að taka ákvarðanir í málum sem blasir við öllum að verður að taka ákvörðun um eða höggva á hnúta í eftir atvikum — við þekkjum ekki mörg slík dæmi á þessum sex ára líftíma ríkisstjórnarinnar og ég hef miklar áhyggjur af því að við sjáum ekki slíkt dæmi á næstunni og alls ekki á þeim tíma sem nú er fram undan þar til kjarasamningar eru lausir.