154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[22:08]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. formanni fjárlaganefndar andsvarið. Svarið er nei, ég tel meiri hluta fjárlaganefndar alls ekki að vera á villigötum í þessum efnum. Ef formaður fjárlaganefndar skildi það þannig þá hef ég ekki talað nógu skýrt. Ég var einmitt að kalla eftir því að fá upplýsingar um það hvað fjárlaganefndin sæi fyrir sér í þessum efnum vegna þess að það eru ekki margir dagar til þess tíma að við ætlum okkur hér að samþykkja þau fjárlög sem liggja fyrir, eða alla vega meiri hlutinn. Ég held að við ættum að vera með áform um það að lækka útgjöld ríkissjóðs miklu meira en um þá 17 milljarða sem tilgreindir voru sem aðhald í tengslum við framlagningu fjárlagafrumvarpsins til að byrja með þannig að ég bara hvet hv. formann fjárlaganefndar til dáða á milli 2. og 3. umræðu hvað þetta varðar, og sé að hv. varaformaður fjárlaganefndar er hér í salnum sömuleiðis. Það eru ekki margir dagar til stefnu en ég er alveg viss um það að stór hluti þingmanna væri áhugasamur um að sjá hvar þær matarholur sé helst að finna að mati meiri hluta fjárlaganefndar til aukins aðhalds, annaðhvort í rekstri eða frestuðum framkvæmdum. Í þessu samhengi hvet ég formanninn til dáða en það var alls ekki meiningin að draga úr, bara síður en svo. Ég hélt ég hefði talað mjög skýrt í ræðu minni hér áðan um mikilvægi þess að auka aðhaldið en ekki draga úr því.