154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[22:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Stefán Vagn Stefánsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég held að hv. þingmaður megi nú ekki búast við því að það komi hingað einhver listi milli 2. og 3. umræðu yfir verkefni sem við teljum að geti beðið. Hugsunin með þessu er miklu frekar að vekja athygli á þessu. Ef til þess kemur, af hvaða stærðargráðu sem það verður, þá held ég að við þurfum bara að fara inn í það mál með opnum huga gagnvart þeim fjárfestingarverkefnum sem ríkissjóður er í á árinu 2024. Það er í raun og veru það sem við erum að segja. Við ætlum ekki að fara að tilgreina hér einhver verkefni heldur erum við bara að tala um þetta svona úr 30.000 fetunum ef það er hægt að orða það þannig

Mig langar í restina, ég sé að tíminn er að renna út, að spyrja hvort hv. þingmaður hafi kynnt sér tillögu okkar varðandi útlendingamálin þar sem við erum að færa frá félagsmálaráðuneyti og yfir á dómsmálaráðuneyti, (Forseti hringir.) hvort hann sé á sömu skoðun og meiri hlutinn um að þetta sé leið til þess bæði (Forseti hringir.) að flýta ferlinu og mögulega til að spara töluverða fjármuni fyrir ríkissjóð.