154. löggjafarþing — 43. fundur,  5. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[23:31]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Með leyfi forseta:

„Til að verja kaupmáttaraukningu og afkomu heimilanna er mikilvægt að við höldum áfram að berjast gegn verðbólgunni en aðgerðir þar að lútandi voru settar á dagskrá strax í sumar og boðar frumvarpið áframhaldandi aðgerðir í því tilliti eins og fjármálaráðherra fór yfir í ræðu sinni.“

Þetta voru orð hv. þingmanns fyrir nokkurn veginn ári síðan um fjárlög fyrir árið 2023. Þá var verðbólgan í lok árs 9,9%. Hún er nú orðin 8%, það er vissulega 1,9 prósentustiga lækkun en ef áframhaldandi þróun á næsta ári verður eins og hún var á þessu ári þá endar hún í 7,5% í lok næsta árs og það er allt of hátt. Það er gert ráð fyrir 5,6% verðbólgu á næsta ári en það hafði verið gert ráð fyrir 4,9% verðbólgu á þessu ári þannig að við erum þó nokkuð yfir því verðbólgumarkmiði. En á sama tíma hefur verðbólgan í Evrópu farið minnkandi og miklu meira, úr 8,6% í upphafi árs þar og fór niður í 2,4%. Við getum því ekki sagt að verðbólguvandinn sé innfluttur vandi í kjölfar Covid og út af stríðinu, sem vissulega var hluti af ástæðunni til að byrja með. Húsnæðisvandinn er enn vandamál og við erum með gjaldeyrisvanda og ýmislegt svoleiðis. Við getum ekki bara kennt Evrópu um það eða kennt verðbólgu annars staðar um okkar vandamál. Með tilliti til þess hvernig átti að grípa til aðgerða gegn verðbólgu í fjárlagafrumvarpi fyrir árið í ár, sem varð síðan ekki úr, við enduðum með 2,1% hærri verðbólgu en búist var við, þá vil ég spyrja: Af hverju ættum við að trúa því að þetta frumvarp geri það sem var sagt að síðasta frumvarp ætti að gera, sérstaklega miðað við að ábendingar seðlabankastjóra eru nákvæmlega þær sömu nú og síðast og þær rættust?