154. löggjafarþing — 44. fundur,  6. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[16:58]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir andsvarið. Auðvitað er það þannig að við göngum svolítið í takt varðandi það að horfa til laganna um opinber fjármál. Þau voru, ef ég man rétt, að einhverjum hluta tekin úr sambandi í Covid og í kjölfarið erum við núna að herða aðeins skrúfurnar varðandi fjármálareglur og annað sem ég held að sé mikilvægt. En það er auðvitað alveg rétt sem þingmaðurinn nefnir, langtímaáætlanir leysa raunverulega ekki neitt nema grundvöllurinn fyrir þeim sé sterkur. Við eigum að halla okkur að lögum um opinber fjármál. Auðvitað sýnist sitt hverjum um þau svo að ég sé alveg heiðarlegur í því. Ef marka má tal um markaða tekjustofna til að mynda þá er ýmislegt sem fólk saknar. Ég held að þau lög séu góð. Ég sé auðvitað að hægt er að halla sér að þeim. Þarna er a.m.k. kominn ákveðinn rammi til að reyna að, ég er ekki að segja að það takist 100%, en rammi til að halla sér að til þess að vera með skýrari yfirsýn, til þess að vera með svona ákveðna festu í ríkisfjármálunum. En ég nefndi líka hér í ræðu minni eftirfylgni með fjárlögunum sem ég held að sé ekki síður mikilvægt að við einbeitum okkur að og að það verði ekki bara þannig að við klárum fjárlög, eins og ég held að sé svolítið lenskan, og svo taka önnur mál við en það sem við erum búin að vera að benda á gleymist en er svo tekið upp eftir ár. Ég vildi miklu frekar að við myndum halda áfram þessari umræðu inni í fjárlaganefndinni eftir áramót.