154. löggjafarþing — 44. fundur,  6. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[18:35]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2024. Það eru hér atriði sem ég vil koma inn á í þessari yfirferð minni. Það hafa ýmsar áskoranir mætt íslensku samfélagi á undanförnum árum sem við höfum blessunarlega borið gæfu til að takast á við í sameiningu. Við höfum þar sýnt samstöðu og gert það með sóma. Bæði var það gert hér á þingi og úti í samfélaginu öllu með samtakamætti og komumst við í gegnum þær áskoranir þó að við finnum auðvitað enn þá fyrir verkjum sem þessu hefur fylgt og munum gera það áfram. Það má sjá þess merki í því frumvarpi sem við ræðum eðli málsins samkvæmt. Svo stöndum við auðvitað frammi fyrir nýjum áskorunum. Þar ætla ég að nefna þá óvissu sem til staðar er, þó að það séu ýmis jákvæð teikn og merki á lofti um að ástandið sé að þróast í rétta átt á Reykjanesskaga eftir þær miklu jarðhræringar sem þar voru. Því ástandi er auðvitað hvergi nærri lokið. Það er alveg fyrirséð, þrátt fyrir að jarðhræringar séu ekki með sama hætti og þær voru fyrir nokkrum dögum og vikum, að efnahagsleg áhrif eru umtalsverð þrátt fyrir að frekari jarðhræringar verði ekki eða það komi ekki til eldgoss á svæðinu sem auðvitað er ekki hægt að útiloka að gerist. Þrátt fyrir það er þetta að þróast með jákvæðari hætti en var kannski búist við fyrir ekki svo löngu síðan en við verðum að sjá hvernig því öllu saman miðar og taka tillit til þess. Stjórnvöld hafa, og það hefur verið mikil samstaða um það á þingi sem við höfum séð í afgreiðslu þeirra mála sem hingað hafa komið, unnið að mótvægisaðgerðum vegna stöðunnar. En auðvitað er líka líklegt að þörf sé á einhverjum frekari viðbrögðum ef til þess kemur. Meta þarf hverju sinni hversu mikið á að grípa þar inn í en ég held að rík samstaða sé um það að taka utan um fólk og fyrirtæki á svæðinu og gera það vel til að koma í veg fyrir frekari áhyggjur, þá sérstaklega fjárhagslegar og þegar kemur að atvinnuöryggi.

Í þessu samhengi getum við auðvitað nefnt og tiltekið ýmsar aðgerðir. Nefna má þennan launastuðning ef svo má kalla, og húsnæðisstuðninginn sem við afgreiddum hér nýlega sem og þessi húsnæðismál í stóra samhenginu til lengri og skemmri tíma. Þegar Grindvíkingum var gert að yfirgefa bæjarfélag sitt varð uppi óvissa; hvert gat fólk farið, hvar átti það að gista og sofa í nótt með fólkið sitt og fjölskyldur. Það hefur verið skammtímaverkefni að kortleggja það og koma fólki til aðstoðar en svo þarf auðvitað að horfa til lengri tíma með hvaða hætti og hvar fólk vill búa. Auðvitað eru einhverjir sem munu fara til baka til síns heima þegar fólk er orðið öruggt og sérfræðingar gefa heimild til. Það verður auðvitað að vera í höndum heimamanna sjálfra og þeirra sem var gert að yfirgefa sveitarfélagið. Okkar er kannski að taka tillit til þess og leyfa Grindvíkingum sjálfum að stýra þeirri ferð. Samhliða þessu þarf auðvitað að haga stjórn ríkisfjármála með skynsamlegum hætti og forgangsraða í þágu þessara mótvægisaðgerða og stuðnings til handa íbúum og fyrirtækjum í Grindavík. Ljóst er að það þarf ekki annað en að hlýða á sérfræðinga í þessum málum sem best þekkja til að það er, held ég að megi segja, nýtt eldgosatímabil hafið á Reykjanesskaga sem kallar á nýja og annars konar nálgun stjórnvalda og samfélagsins alls sem við höfum séð í öðrum málum sem hafa komið til þingsins. Ég ætla að leyfa mér að nefna landsskipulagsstefnuna þar sem sérstaklega er horft til þess þegar kemur að skipulagsmálum að taka tillit til þeirrar náttúruvár sem við þekkjum hér á okkar góða landi. Það eru yfir 30.000 manns sem búa á Reykjanesskaganum en eldstöðvakerfi teygja sig líka inn á höfuðborgarsvæðið, Hafnarfjörður, Reykjavík o.fl. er þar undir. Því er mjög brýnt og mikilvægt að stórauka áherslu á forvarnir og stuðning við íbúa og viðbragðsaðila og hafa sveitarfélögin og atvinnulífið með í ráðum á Reykjanesskaga og höfuðborgarsvæðinu öllu. Þegar til þess kemur er mikilvægt að geta brugðist rétt við og með skynsamlegum hætti í framtíðinni vegna þess að nýtt eldgosatímabil virðist vera hafið á þessu svæði okkar. En við búum á þessu landi og það eru kostir og gallar sem fylgja þessu. Þetta gefur okkur auðvitað líka auðlind sem er heita vatnið en getur haft þessi áhrif sem við höfum séð svo nýlega og geta verið komin óþarflega nálægt okkur, ef svo má segja. Þá er mikilvægt að sýna samstöðu. Það höfum við svo sannarlega gert og munum standa þessa vakt áfram fyrir íbúa svæðisins.

Þegar við skoðum meginmarkmið frumvarpsins þá taka þau til tveggja meginþátta sem byggjast að miklu leyti upp á þeirri jákvæðu þróun efnahagslífsins sem hefur, þrátt fyrir erfiðleika sem voru uppi fyrir ekki mjög löngu síðan vegna Covid-heimsfaraldursins, verið mun hraðari heldur en var kannski gert ráð fyrir á sínum tíma. Þessi meginmarkmið eru annars vegar, eins og fram kemur í frumvarpinu, afkomumarkmið og hins vegar skuldahlutfallið. Með afkomumarkmið er áætlað að halli samkvæmt heildarútkomu verði um 47 milljarðar kr. en frumjöfnuður, sem eru tekjur án vaxtatekna og vaxtagjalda, verði jákvæður um rúmlega 29 milljarða, eða um 0,6% af vergri landsframleiðslu á næsta ári. Þetta gefur okkur þá niðurstöðu að afkoman hefur ekki verið betri síðan fyrir heimsfaraldur Covid-19. Síðan erum við hins vegar með skuldahlutfallið en áætlað er að skuldir samkvæmt skuldareglu, sem skilgreind er í 7. gr. laga um opinber fjármál, hækki að nafnvirði um rúmlega 50 milljarða kr. en lækki sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Samkvæmt þessu er miðað við að skuldir verði innan við 31% af vergri landsframleiðslu í lok næsta árs en talið er að viðunandi skuldastaða miðist við kannski 30% af vergri landsframleiðslu og það sé forsenda þess að hægt sé og það megi bregðast við óvæntum efnahagsáföllum.

Ef við tölum aðeins um rammasettu útgjöldin þar sem búið er að sleppa vaxtagjöldum, lífeyrisskuldbindingum, ríkisábyrgðum og framlögum til Atvinnuleysistryggingasjóðs og Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem þar er undir þá er gott að taka þann samanburð því að hann gefur okkur nokkuð góða mynd af útgjaldaþróun í grunnrekstri ríkisins. Á heildina litið hækka rammasett gjöld um 37,2 milljarða kr. að raungildi á milli ára og eru breytingar bæði til lækkunar og hækkunar. Mesta hækkunin er 11,5 milljarðar kr. vegna varasjóðs fjárlaga, sem skýrist aðallega af því að launahækkanir komandi kjarasamninga eru ekki áætlaðar í einstök málefnasvið heldur er þess í stað gert ráð fyrir þeim í varasjóði og millifært verður út af þeim lið eftir því hvernig kjarasamningum vindur fram. Næstmesta hækkunin er 8,2 milljarðar vegna sjúkrahúsþjónustu þrátt fyrir tillögu um 3,9 milljarða kr. lækkun við 2. umræðu frumvarpsins, sem skýrist bæði af auknum rekstrarheimildum og viðbót til byggingar nýs landspítala. Þá hækka gjöld til orkumála um 5,9 milljarða. Þar er um tilfærslu að ræða frá tekjuhlið fjárlaga þar sem styrkir Orkusjóðs koma að hluta til í stað niðurfellingar gjalda vegna kaupa á hreinorkubifreiðum. Þetta er fyrirkomulag sem við höfum rætt töluvert í efnahags- og viðskiptanefnd og hugnast mér það nokkuð vel. En í þessu eins og öðru þarf að vanda framkvæmdina vel. Síðan hækka framlög til húsnæðismála um 4,9 milljarða kr. og endurspegla að mínu mati, og held ég flestra sem þetta lesa, þær áherslur stjórnvalda að stefna að aukinni húsnæðisuppbyggingu og ná jafnvægi á húsnæðismarkaði. Þar munar auðvitað mestu um aukin stofnframlög vegna fjölgunar íbúða í því sem kallað er almenna íbúðakerfið. Ýmsu má bæta við en ég ætla að leyfa mér að nefna framlög til heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa sem hækka um 4,5 milljarða að raungildi og fleira mætti auðvitað tiltaka í þessu samhengi.

Ég vil aðeins staldra við og ræða húsnæðismálin, virðulegur forseti, sem hafa verið mér ofarlega í huga. Þá vil ég sérstaklega tiltaka þessa 4,9 milljarða. Við erum nýbúin að ræða og hér hefur nýlega verið lögð fram fyrsta heildarstefnan í húsnæðismálum, sem er stefna til 15 ára og aðgerðaáætlun til 5 ára, og er markmiðið með þeirri stefnu til lengri tíma að auka, eins og fyrr segir, jafnvægi á húsnæðismarkaði ásamt því að gera stjórnsýsluna alla skilvirkari. Það er það sem skiptir mestu máli. Það hefur verið kvartað undan því að kerfið sé óskilvirkt og það taki of langan tíma frá hugmynd til framkvæmdar að byggja hús. Það er bara til komið vegna þess að flækjustigið hefur verið of mikið í kerfinu og þetta þekkjum við mörg hver sem höfum verið við borðið í sveitarstjórnarmálum. Þarna kemur líka inn að fá aukið jafnvægi í umhverfið, þ.e. að auka gæði íbúða, sem skiptir gríðarlega miklu máli. Til viðbótar þessu, sem helst í hendur við almenna íbúðakerfið, er að bæta húsnæðisöryggi í landinu, sérstaklega þeirra sem höllum fæti standa og er nauðsynlegt að styðja við og ýta undir. Til að ná þessum markmiðum hefur hæstv. innviðaráðherra gert samninga við sveitarfélög um uppbyggingu, svokallaða rammasamninga, en markmiðið með þeim samningum er auðvitað að fá þessa sameiginlegu sýn og einhverja langtímaáætlun um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis hjá sveitarfélögunum. Þegar ég segi langtímasýn er markmiðið og sýnin, sem nær til ársins 2032 og er tíu ára áætlun, að horft sé til þess að tryggja nægilegt framboð lóða og að byggt sé í takt við þörf á hverjum tíma. Það er augljóst að þetta tvennt, framboð lóða og skilvirkni í uppbyggingu og langtímasýnin sem birtist í þessum rammasamningum, verður að raungerast svo að markmiðin um uppbyggingu 35.000 íbúða og jafnvel fleiri verði að veruleika innan þess tímaramma sem ráðherra og stjórnvöld eru að vinna með. Þegar ég segi stjórnvöld er ég bæði að tala um ríkisvaldið og sveitarfélögin sjálf sem eru fullir þátttakendur í þessari vinnu.

Heildarpakkinn í þessum rammasamningum er að byggja 35.000 íbúðir þar sem gert er ráð fyrir að 35% verði hagkvæmar, almennar íbúðir og hlutdeildarlánsíbúðir, það eru 12.250 íbúðir í því kerfi, og að 5% verði félagslegar, þ.e. 1.750. Þau markmið sem sveitarfélögin hafa verið að vinna með í sínum samningum við framkvæmdaraðila er að tryggja þessa félagslegu blöndun þegar kemur að uppbyggingu. Þetta er auðvitað algjör forsenda þess að við náum að komast úr því ástandi sem við erum í þessa dagana. Hér má alveg geta þess og taka það fram að við erum með þessu að byggja nýtt húsnæðiskerfi, þ.e. almenna íbúðakerfið. Ég held ég fari rétt með þessar tölur en ég held að það séu 65 milljarðar sem eru farnir í almenna íbúðakerfið allt frá árinu 2016 þegar það var sett á fót. Það eru 39 milljarðar frá ríkinu og 26 milljarðar frá sveitarfélögum. Þetta eru engar smáupphæðir, virðulegur forseti, og háar tölur. Ég dreg það sérstaklega fram vegna þess að það hefur oft verið látið eins og ekkert hafi verið gert í þessum málum. Það er auðvitað alrangt eins og þessar tölur sýna, ekki bara tölurnar heldur verkin.

Nú er staðan hins vegar sú að okkur fjölgar um 1.000 á mánuði, 12.000 á síðasta ári. Það gefur augaleið að það þarf að hraða uppbyggingunni og byggja í takt við þessa þörf og þessa miklu fjölgun. Annars er hætt við því að við lendum í þeirri stöðu sem við þekkjum orðið of vel hér á landi, þ.e. að það verði umframeftirspurn á markaði sem leiði til hás verðs og ýti og kyndi undir verðbólgu hér á landi. Það má bara ekki undir nokkrum kringumstæðum raungerast aftur. Það er mikilvægt, virðulegur forseti, að hér taki allir höndum saman í þessu verkefni og verði sammála um að byggja meira og liðka fyrir aukinni uppbyggingu. Það gerist bara með góðu samstarfi og samtali á milli ríkis og sveitarfélaga.

Ég talaði um fjölgun. Árið 2022 fjölgaði íbúum á þessu landi okkar um 3% og útlit er fyrir að fólksfjölgun á næsta ári verði með svipuðu móti, eða um 3%. Þetta er meiri fjölgun en allar okkar áætlanir og áætlanir sveitarfélaganna, sameiginlega jafnvel, gerðu ráð fyrir. Ég bæði heyri og skil sveitarfélögin hér á höfuðborgarsvæðinu í mínu kjördæmi, Suðvesturkjördæmi, með þeim hætti að það sé ríkur vilji sveitarfélaga — af því að því hefur oft verið fleygt fram að það þurfi fleiri sveitarfélög að taka þátt í að gera rammasamning við ríkið heldur en bara Reykjavíkurborg og nú Vík í Mýrdal — að taka þátt í þessu brýna verkefni. En til þess þarf auðvitað lóðir. Byggingarland þarf að vera til, ekki bara eintómir þéttingarreitir. Við vitum það alveg og þekkjum að á þeim stöðum eru oft stór atvinnusvæði, blómleg atvinnusvæði sem iða af lífi í dag. Við verðum að bera gæfu til þess að tryggja góða blöndu af lóðum. Þá er ég undir engum kringumstæðum að segja að við eigum að hverfa frá þéttingu byggðar en það þarf að vera skynsamleg blanda í þessu. Tryggt framboð og öryggi á húsnæðismarkaði er nefnilega mikið hagsmunamál í íslensku samfélagi. Langtímaskortur, vegna þess að skortur á íbúðamarkaði er ekki nýtilkominn, hefur valdið því að leiguverð, sem hefur þó hækkað minna, og fasteignaverð hefur hækkað mikið. Ég ítreka að það er bara ein leið sem getur komið í veg fyrir að fasteignaverð og leiguverð haldi áfram að hækka með jafn óeðlilega miklum hætti og verið hefur. Sú leið er einfaldlega aukið framboð á húsnæði. Það er engin önnur leið til þess. Þá komum við að markmiðum innviðaráðherra um aukna húsnæðisuppbyggingu og þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til. Svo ég ítreki það er það mikilvægt innlegg í þá vegferð að tryggja hér nægilegt framboð á húsnæði. Hins vegar er annað sem spilar þarna inn í sem er að húsnæðismarkaðurinn hefur fundið verulega fyrir aðgerðum Seðlabankans þar sem kaupendum hefur verið gert erfiðara um vik að komast inn á markaðinn og fjármögnun nýframkvæmda er orðin dýrari. Það er einfaldlega til komið vegna þess að vextir eru háir sem þýðir að fjármagn er orðið dýrara. Þegar ég segi að kaupendum hafi verið gert erfiðara um vik að komast inn á markaðinn þá er það vegna þess að greiðslumat og veðsetningarhlutfall hefur verið hækkað með hertum lánþegaskilyrðum Seðlabankans. Það er algjörlega þvert á það sem við þurfum nú því að þegar allt er tekið saman hefur það letjandi áhrif á framkvæmdaraðila til að halda áfram að byggja íbúðir.

Ég leyfi mér að nefna eitt ótengt, af því að við höfum verið að ræða Covid og þær aðgerðir sem ráðist var í á þeim tíma. Í heimsfaraldrinum var samþykkt að veita sveitarfélögum heimild til að víkja frá fjármálareglum sveitarstjórnarlaga þar sem markmiðið var að tryggja sveitarfélögum aukið svigrúm til að ráðast í auknar fjárfestingar og mæta aðsteðjandi vanda í rekstri vegna þeirra aðstæðna sem faraldrinum fylgdi. Að mínu mati má vel horfa á sambærilega aðgerð þegar kemur að skynsamlegu og tímabundnu fráviki frá svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins, enda hefur fólksfjölgunin á þessu svæði verið langt umfram allar spár frá þeim tíma þegar vaxtarmörk fyrir höfuðborgarsvæðið voru ákvörðuð í kringum árið 2014/2015. Ég tel að slík endurskoðun myndi tryggja þessa mikilvægu blöndu lóða á nýbyggingarsvæðum í bland við nauðsynlega þéttingu byggðar og verða til þess að markmið um aukna uppbyggingu húsnæðis muni raungerast um allt land. Ég legg hér og hef lagt í þessari ræðu minni áherslu á höfuðborgarsvæðið en auðvitað eru fleiri sveitarfélög og landsvæði með land til að byggja upp. Það verður að taka það með inn í myndina og ég legg hér allt landið undir. En við vitum að hér er auðvitað fjölmennið, hér búa flestir og þannig mun það vera áfram. Því þarf að horfa sérstaklega til aðgerða á höfuðborgarsvæðinu.

Ef við förum rétt í lokin aðeins yfir efnahagsforsendur frumvarpsins sem byggjast á spá frá Hagstofu Íslands þá gerir hún ráð fyrir að á næsta ári muni hagkerfið leita jafnvægis með hóflegum hagvexti og lækkandi verðbólgu. Á þessu ári hefur auðvitað verið verulegur hagvöxtur og sérstaklega á fyrri hluta ársins. Í forsendum frumvarpsins er gert ráð fyrir að verðbólgan fari niður í 4,9% og hagvöxtur verði um 2,6%. Sé horft til ársins í ár er útlit fyrir, þrátt fyrir að árið sé ekki alveg á enda, að verðbólgan verði að meðaltali um 8,7% og vaxtastig er auðvitað of hátt. Verðbólgan hefur áhrif á samfélagið allt og fólk og fyrirtæki finna fyrir hækkandi vöxtum sem reynist mörgum vera, eins og farið hefur verið yfir í fyrri ræðum, þungur baggi að bera um þessar mundir. Það er skylda okkar sem hér sitjum að horfa á og greina stöðuna með reglulegum hætti og taka utan um þá hópa sem verða hvað verst úti. Það liggur fyrir að stór hluti lána er á föstum vöxtum sem munu losna á komandi ársfjórðungum. Það getur breytt stöðunni mjög hratt til hins verra ef ekkert er að gert og því er mikilvægt fyrir okkur öll að vera með augun á boltanum í þessu, ef svo má segja, og greina hlutina og geta brugðist við þegar við á. Þar leyfi ég mér að nefna að ég tel það vel koma til greina að fara í sértækar aðgerðir fyrir þá hópa sem verða hvað verst úti í þessu með ábyrgum og öruggum hætti. En stjórn efnahagsmála og peningamála verður mikilvægasta verkefni stjórnmálanna og samfélagsins alls á næstu mánuðum og við á þingi og aðrir munum þurfa að vera með þessi mál í fanginu, fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd sérstaklega, með það að markmiði að ná tökum á verðbólgunni og ná vöxtum niður. Það er mjög brýnt. Hér hefur verið talað um hlutlaus fjárlög en ég vil segja að þau séu tiltölulega ábyrg. Við náum niður verðbólgu með ábyrgum rekstri og aðhaldi í ríkisfjármálum um leið og við tökum utan um þá hópa sem þurfa á aðstoð að halda, þessa viðkvæmu hópa í samfélaginu. Þá þarf auðvitað að verja alveg sérstaklega fyrir áhrifum verðbólgu með aðgerðum.

Kjarasamningar spila þarna inn í en þeir eru margir að losna um áramótin og þar er allra hagur að vel takist til. Höfuðmarkmiðið á að vera og hlýtur að vera að lenda farsælum langtímakjarasamningum sem styðja við allt þetta verkefni að ná niður verðbólgu og vöxtum, sem er að mínu mati og að allra mati, frú forseti, óumdeilt mesta kjarabót heimila og fyrirtækja í landinu, að lækka verðbólgu og vexti. Enn sem komið er er staðan nokkuð góð á vinnumarkaði. Atvinnuleysi er lágt og nýjum atvinnutækifærum fjölgar stöðugt í fjölbreyttara atvinnulífi um land allt. Þó svo að staðan sé sú að stjórnvöld eigi ekki formlega aðkomu að kjarasamningsgerðinni er ljóst að aðilar vinnumarkaðarins munu kalla eftir því að stjórnvöld liðki fyrir samningsgerð. Þar er líklegt að háværust verði krafan um frekari úrræði til að stuðla að auknu húsnæðisöryggi og að barnafjölskyldur og þeir sem lakast standa verði sérstaklega varin eins og ég hef farið yfir. Ég geri ráð fyrir því og veit að stjórnvöld munu átta sig á þessu mikilvæga hlutverki sínu og stíga inn með aðgerðir og hafa nú þegar gert það á húsnæðismarkaði, eins og ég hef áður nefnt, þegar kemur að uppbyggingu almennra íbúða með hlutdeildarlánum sem hafa gefið góða raun.

Ég ætla að fara að enda þetta, frú forseti, en leyfi mér að nefna mjög jákvæðar aðgerðir þegar kemur að löggæslu og Landhelgisgæslunni, að þær aðhaldskröfur sem þar voru hafi verið felldar niður og að möguleiki sé á einhverjum frekari aðgerðum hvað það varðar, vegna þess að það er mikilvægt að rekstrargrundvöllur þessara stofnana verði varinn og hann tryggður til framtíðar.

Ég held að þetta sé það helsta en ég tel líka brýnt á næstu mánuðum að farið sé inn á þessa þætti sem hafa verið til umræðu vegna þess að hér eru auðvitað tvö stjórnsýslustig, ríkið og sveitarfélög. Við þurfum einhvern veginn að treysta tekjustofna sveitarfélaganna. Við sem sitjum á þingi erum að mestu með umgjörðina, lagaumgjörðina og regluverkið, á meðan sveitarfélögin sinna þessari þjónustu sem þeim er falin lögum samkvæmt en líka oft þjónustu sem þeim ber engin lagaleg skylda til að veita en er samt sem áður mikilvæg.

Svo hefur það auðvitað gerst, eins og við höfum áður rætt og þekkjum öll, að mjög stórir málaflokkar hafa verið færðir yfir. Ég leyfi mér að nefna málefni grunnskólanna og málaflokk fatlaðs fólks. Komið hefur á daginn að þegar þjónustan færist nær fólkinu, sem er nær kjörnum fulltrúum í sinni heimabyggð, þá eykst hún auðvitað. Hún er nær fólkinu og verður þar af leiðandi dýrari. Við þurfum að lenda þessum málum svo að sveitarfélögin geti sinnt því sem við viljum að þau sinni, sem er fyrst og fremst að veita íbúum í sinni heimabyggð góða og nauðsynlega þjónustu. Ég leyfi mér sérstaklega í lokin að nefna málefni fatlaðs fólks sem við eigum hreinlega að bera gæfu til að sinna og vera ekki í stöðugum deilum um það hver eigi að borga og jafnvel ganga svo langt að láta í veðri vaka að fatlað fólk sé byrði á sveitarfélögunum.