154. löggjafarþing — 44. fundur,  6. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[23:52]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Stefán Vagn Stefánsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir gott svar. Hv. þingmaður ræðir hér um árangursmælikvarða. Nú veit ég að í sumum stofnunum, og ansi mörgum, eru þessir árangursmælikvarðar til og eru notaðir. Það er því klárlega eitthvað sem væri hægt að byrja á, að skoða þá þær stofnanir þar sem þessir mælikvarðar eru virkir og hafa verið nýttir undanfarin ár til þess að bera saman og sjá hvað við komumst með það.

Aðeins varðandi „innan ramma“. Mig langar aðeins að spyrja hv. þingmann út í þetta. Nú hef ég sjálfur verið innan stofnunar sem hefur verið með ramma. Við höfum verið að taka að okkur og tókum að okkur ýmis verkefni sem kostuðu okkur ekki fjármagn heldur var hægt að hagræða í stofnuninni. Mig langar að velta þeirri spurningu upp við hv. þingmann hvort í einhverjum tilfellum geti það verið þegar þessi „innan ramma“ — sem ég veit að hv. þingmaður hefur sterkar skoðanir á og ég deili alveg með honum að einhverju leyti. Auðvitað er það þannig að stofnanir ríkisins hafa ákveðið svigrúm innan sinna fjárveitinga til að hliðra til og laga til og í einhverjum tilfellum að búa sér til þá stöðu að geta farið í ný verkefni, hvort sem þau eru til langs tíma eða tímabundin, sem eru innan ramma fjárheimilda. Hvort hann sé ekki sammála mér í þeirri nálgun að auðvitað eru tilfelli þar sem þetta er hægt.