154. löggjafarþing — 45. fundur,  7. des. 2023.

áætlun og aðgerðir stjórnvalda varðandi útrýmingu fátæktar.

[10:52]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Líkt og ég nefndi í fyrra svari mínu til hv. þm. Guðmundar Inga Kristinssonar þá kemur fram í þeirri skýrslu sem hv. þingmaður vitnar til, um fátækt og áætlaðan samfélagslegan kostnað af henni, að það hefur dregið úr hlutfalli tekjulágra á Íslandi á síðastliðnum 20 árum. Það er jákvæð þróun og sú þróun þarf að sjálfsögðu að halda áfram. Jafnframt nefndi ég hér áðan að staðan á Íslandi er með því besta sem þekkist meðal samanburðarlanda, sem er mikilvægt að við höfum og höldum til haga á sama tíma og við vinnum ötullega að því að reyna að draga úr fátækt.

Hv. þingmaður spyr mig: Er mögulegt að útrýma fátækt? Ég verð að viðurkenna að ég veit ekki alveg hvort það er mögulegt. Það er rétt eins og þegar við tölum um hvort hægt sé að ná fram sjálfbærri þróun. En eitt veit ég, að við getum færst nær því markmiði og að markmiðið á að vera að útrýma fátækt. Það eru síðan ýmsir þættir sem hafa áhrif á það hversu langan tíma það tekur. Í mínum huga, og horfi ég þá til þeirra breytinga sem við erum að gera á örorkulífeyriskerfinu, verða stigin mjög mikilvæg skref einmitt í þá átt að draga úr fátækt á Íslandi. Skýrslan sem kom út í gær frá Vörðu dregur skýrt fram að í hópi þeirra sem þar var verið að athuga sérstaklega, þ.e. örorkulífeyrisþega og endurhæfingarlífeyrisþega, er svo sannarlega verk að vinna. Ég get sagt að sú vinna er svo sannarlega í gangi í ráðuneytinu að vinna að breytingum á kerfinu til að það nýtist þessum hópi betur en verið hefur.