154. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[15:32]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við erum að fara að greiða atkvæði eftir 2. umræðu um fjárlagafrumvarp þar sem halli ríkissjóðs muni verða 47 milljarðar. Hagvöxtur á síðasta ári, eins og kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans var 7,2%. Það er gríðarlegur hagvöxtur í samfélaginu. Íslendingum fjölgar um 1.000 manns á ári. Það eru 74.000 erlendir ríkisborgarar sem eru hér við vinnu, 18–19% af vinnuafli landsins. Það er verðbólga í landinu og stýrivextir eru 9,25%. Við erum ekki að taka á orsökum verðbólgunnar í þessu fjárlagafrumvarpi. Stýrivextir munu ekki taka á grunnorsökum verðbólgunnar sem er fólksfjölgun fyrst og fremst og hin gríðarlega þensla, hin gríðarlega eftirspurn í samfélaginu. Það er ekkert í þessu fjárlagafrumvarpi sem bendir til að hin þráláta verðbólga fari að minnka, ekki neitt. Það er ekki verið að taka á þeim vandamálum sem við er að stríða í samfélaginu. Við erum sennilega að fara í þráláta verðbólgu svipaða og var á milli 1980 og 1990 og næstu tíu ár munu sennilega verða verðbólgutímabil ef ekkert verður gert. (Forseti hringir.) Það er ekkert verið að gera í þessum fjárlögum og heimilin í landinu þurfa að greiða fyrir það með hækkandi lánum.