154. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[15:45]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það veldur hér auðvitað nokkurri undran að ríkisstjórnin leggi fram fjárlög sem Seðlabankinn metur sem hlutlaus þegar sennilega sjaldan hefur riðið meira á en núna að ríkisstjórnin og ríkisfjármálin tækju til hendinni með Seðlabankanum, sem hefur iðulega verið skilinn eftir einn í þessum slag undanfarin misseri. En mig langar hér við þetta tilefni að minna stjórnarflokkana á það að í nefndaráliti meiri hluta segir að gert sé ráð fyrir því að jafnvel þurfi í ljósi óvissunnar að gera ráð fyrir breytingum við 3. umræðu frumvarpsins og endurmeta útgjöld til lækkunar. Þetta var sagt í samhengi við útgjöld sem snúa að ástandinu á Reykjanesi og stuðningi við bændur. Ég minni meirihlutaflokkana á það að það er engin ástæða til að víkja frá þessari sýn þó að tæknilega hafi verið ákveðið að afgreiða þessa tvo þætti í fjáraukalögum. Miðflokkurinn mun sitja hjá við afgreiðslu málsins á eftir og sömuleiðis við breytingartillögur meiri hlutans í ljósi heildstæðrar nálgunar. Við gætum smellt einu og einu rauðu, svona af og til.