154. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[17:16]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hér kemur fram grímulaust álit þessarar ríkisstjórnar á eldri borgurum og öryrkjum. Þeir ætla að hækka lífeyri almannatrygginga um 4,9%. Þessi sama ríkisstjórn ætlar að hækka framlag til einkarekinna fjölmiðla samkvæmt verðlags- og launavísitöluhækkunum um 10,6%. Ég hef margítrekað spurt: Hvernig í ósköpunum er hægt að reikna svona tvær vísitölur og launaþróun gjörsamlega rangt? Og skýringin var jú að þeir hefðu fengið 2,5% í sumar, öryrkjarnir. Það stenst ekki. Þarna munar 6% — 6% sem þeir ætla að gefa gæðingunum sínum, einkareknum fjölmiðlum, og RÚV líka, spáið í það. Þeir fá allt bætt. En eldri borgarar, öryrkjar? Nei, þeir eru ekki þess verðugir. Þeir fá 6% minna. Það er stefna ríkisstjórnarinnar.