154. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2023.

viðskiptaþvinganir og aðrar aðgerðir vegna ástandsins á Gaza.

[15:05]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður segir að ástandið kemur ekki bara okkur öllum við heldur snertir okkur öll. Ég vil byrja á því að segja að ég hafna því alfarið að skilaboð íslenskra stjórnvalda hafi verið óskýr. Við skipuðum okkur með nær öllum vina- og bandaþjóðum í atkvæðagreiðslunni hjá Sameinuðu þjóðunum í upphafi og höfðum tekið það skýrt fram að við styddum ályktunina sem lá fyrir en við vildum gera á henni breytingu. Síðan hefur Alþingi ályktað og ég hef sömuleiðis setið fjölmarga fundi. Ég hef setið fundi bæði í Ósló með utanríkisráðherrum og ég hef setið fundi með varnarmálaráðherrum í Stokkhólmi. Ég hef farið á fund NATO-ríkjanna og við erum alls staðar að ræða þessa sömu hluti, um samstöðuna sem er milli ríkja um að það þurfi að draga úr spennu á svæðinu. Mikill meiri hluti ríkja hefur lagt til að stríðsátökunum yrði hætt eins og gert var hér í ályktun frá Alþingi, að mannúðarhlé yrði gert og sem betur fer tókst það í nokkra daga en þó, því miður, gat ekki orðið framhald á því vegna ágreinings milli Ísraels og Hamas og átökin standa enn sem er í raun og veru hrein hörmung.

Þegar spurt er um næstu skref þá segi ég einfaldlega: Við munum áfram tala fyrir því að dregið verði úr spennu á svæðinu. Við munum áfram tala fyrir því að mannúðaraðstoð verði komið til þeirra sem eru í neyð. Við höfum stóraukið framlög okkar til palestínsku flóttamannaaðstoðarinnar og við munum sækja fundi og láta okkar rödd heyrast. Það er umræða bæði hjá Sameinuðu þjóðunum og síðan er verið að leggja upp með fundi í þessari viku. Nú er forsætisráðherra staddur á Norðurlöndunum (Forseti hringir.) og það kann að vera að ég muni sömuleiðis sækja fund síðar í vikunni um þessi efni. Þetta eru okkar næstu skref, (Forseti hringir.) þ.e. að skila því frá okkur Íslendingum, íslenska þinginu, að við viljum að átökunum linni.