154. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2023.

stuðningur við mál um græna orkuframleiðslu.

[15:56]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Sigmars Guðmundssonar varðandi þennan kjarnapunkt. Hér situr þingmaður í útvarpsviðtali í morgun, fyrrverandi ráðherra þessarar ríkisstjórnar, og talar um að hér ríki neyðarástand. Þannig lýsir hann ástandinu. Hér ríki neyðarástand í orkumálum, það ógnar öryggi fólksins í landinu. Spurðir um það hvort ríkisstjórnin eigi eitthvert framlag eða einhver svör við að ná okkur upp úr þessu ástandi segir hann orðrétt, með leyfi forseta: „Ég hef enga trú á því að þessi ríkisstjórn geri það.“ Ætla menn þá að gera athugasemdir við að þetta sé rætt hér í þessum sal, að ríkisstjórnin er sjálf farin að tala þannig? Þingmenn ríkisstjórnarinnar sjálfrar tala þannig að ríkisstjórnin geti ekki skilað árangri. Þungavigtarmaður í Sjálfstæðisflokknum talar með þessum hætti. Það er auðvitað kjarni málsins og þá er það þingsins að grípa inn í.