154. löggjafarþing — 47. fundur,  11. des. 2023.

stuðningur við mál um græna orkuframleiðslu.

[16:02]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Það mátti gera ýmsar aðfinnslur við hv. þm. Jón Gunnarsson sem dómsmálaráðherra, en miðað við svör hæstv. umhverfis-, loftslags- og orkumálaráðherra þá fyndist mér alveg full ástæða til þess að Jón settist kannski í það sæti. Hitt er síðan annað mál að ég vil vekja athygli þingheims á því að nú hefur hv. þingmaður ítrekað borið VG, Vinstrihreyfinguna – grænt framboð, þeim sökum að standa í vegi fyrir öllum framförum og framþróun þegar kemur að orkuöryggi í landinu, að þingflokkur VG standi í vegi fyrir því að hér sé hægt að standa vörð um þjóðaröryggi, hvorki meira né minna. Þetta sé þannig mál. Ég saknað svolítið að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs stigi ekki eitthvað fram því að þetta hefur verið nefnt hér í þinginu af hv. þingmanni og aftur í viðtali í morgun. Mér finnst að við þurfum að fá einhver svör frá einum stjórnarflokkanna um það hvaða skoðun þeir hafa á þessum ummælum og hvort þeir taki undir það að þeir hafi staðið í vegi fyrir allri framþróun í þessum málaflokki.