154. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2023.

Störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Fyrir nær áratug síðan skrifaði formaður Sjálfstæðisflokksins bréf til eldri borgara þar sem hann sagðist ætla að draga verulega úr skerðingum í almannatryggingakerfinu. En hver er staðan nær áratug seinna? Jú, skerðingar í kerfinu hafa aldrei verið eins miklar og í dag. Árið 2022 voru skerðingar í almannatryggingakerfinu um 75 milljarðar, 75.000 milljónir. Af því voru 51.000 hjá öldruðum. Tekjutryggingar örorku, það voru 10 milljarðar, heimilisuppbót ellilífeyrisþega 3,3 milljarðar og sérstök uppbót til framfærslu, sem var breytt í 65% skerðingu, 8 milljarðar. Þetta sýnir svart á hvítu hvernig staðan var. En ég held hreinlega að formanni Sjálfstæðisflokksins á þeim tíma hafi orðið fótaskortur á tungunni, hann meinti að hann ætlaði að draga úr vægi styrkja í almannatryggingakerfinu og það hefur hann svo sannarlega gert og tekist vel upp. Þeir setja á styrki; bílastyrki, bifreiðastyrki til reksturs bifreiða, ýmsa styrki. En þeir hækka það ekki svoleiðis áratugum saman. Þannig ná þeir að sjá til þess að þau sem þurfa á styrkjum að halda fá alltaf minna og minna þangað til þetta gildir ekki.

Síðan tókst þeim á einhvern ótrúlegan hátt að skella krónu á móti krónu á ákveðinn hóp eldri borgara, þá verst settu, verst settu eldri borgarana sem lifa í fátækt eða sárafátækt. Þetta er nákvæmlega eins og ef þeir myndu segja núna: Við ætlum að draga úr orkuskorti. Hvernig förum við að því? Jú, með því að láta þetta púlt ekki virka, það virkar ekki vegna þess að rafmagnið er ekki lengur á því, og þá erum við búnir að redda orkuskortinum í samfélaginu.