154. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2023.

Störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Í fréttum gærdagsins sagði framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum að það stefndi í að spítalinn yrði stærsta og dýrasta hjúkrunarheimili landsins. Í dag bíða 800 einstaklingar eftir plássi á hjúkrunarheimili, þar af 400 manns hér í Reykjavík. Á sama tíma bíða yfir 90 manns eftir útskrift á Landspítala en komast hvergi þar sem ekkert úrræði er að fá. Landspítalinn er fyrir undir miklu álagi og þetta hefur bæði áhrif á alla þjónustu hans og eykur álag á starfsfólkið. Til að fara í átak og eyða þessum svakalega biðlista þyrfti 35–40 milljarða. Við vitum vel að fjármagn til þess mun ekki fást í náinni framtíð þótt það myndi þýða að við myndum bæði auka lífsgæði eldri borgara og spara gífurlega fjármagn til lengri tíma. Það gengur ekki að 70 manns liggi á göngum Landspítalans. Það gengur ekki heldur að 90 manns dvelji þar í bið eftir úrræði sem er bæði betra og ódýrara. Hér þarf, virðulegur forseti, að taka til hendinni. Það að bæta heimahjúkrun mun bara hjálpa til að litlu leyti. Það þarf einnig að skoða kosti þess að byggja smærri einingar til að þjónusta fólk í sinni heimabyggð. Það er engan veginn mannúðlegt að eldra fólk sé flutt landshluta á milli til dvalar á hjúkrunarheimili. Það hefur eingöngu í för með sér félagslega einangrun.

Virðulegi forseti. Við þurfum að fara að horfa á þennan málaflokk af einhverri virðingu. Þetta er hópurinn sem reist hefur velferðarkerfi landsins. Ég er ekkert viss um að við sem nú förum með fjárveitinga- og löggjafarvaldið viljum húka á biðlistum eftir þjónustu eða liggja á göngum spítala þegar kemur að því að við verðum gömul.