154. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2023.

Störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég ætlaði nú að ræða um annað í dag en orkumál en í kjölfar ræðu hv. þm. Jóns Gunnarssonar hér á undan þá ætla ég að skipta um kúrs. Ég fagna því mjög ef sú afstaða er að koma fram frá þingflokki Sjálfstæðisflokksins núna sem ég hef nú talið mig vita að væri skoðun þess ágæta hóps en hann ekki haft stöðu til að ganga fram með þeim hætti sem ég veit að þingflokkurinn telur skynsamlegt. En það er vonandi að breytast. Ég bara ítreka það sem ég sagði hér í ræðu í gær, að þingflokkur Miðflokksins mun styðja við öll þau mál sem til gagns geta orðið og vit er í til þess að tryggja að þessu neyðarástandi í orkumálum linni. En ég verð jafnframt að minna á það sem hv. þm. Jón Gunnarsson sagði svo réttilega í viðtali á Bylgjunni í gærmorgun, réttilega að mínu mati og augljóslega hans sjálfs, að í núverandi ríkisstjórnarsamstarfi þá komast menn ekki áfram. Ég bara hvet hv. þm. Jón Gunnarsson og hans félaga í Sjálfstæðisflokknum til að taka nú á sig rögg og leggja fram mál sem varða það sem hv. þingmaður nefndi hér áðan, og séu þau til bóta og ætluð til aukinnar grænnar orkuframleiðslu með skynsamlegum hætti þá mun ekki standa á þingflokki Miðflokksins að styðja við þau. Það mun sömuleiðis, miðað við yfirlýsingar gærdagsins, ekki standa á þingflokki Viðreisnar að gera það. En eins og við þekkjum er fyrirstaðan í þingflokknum sem fer fyrir þessa ríkisstjórn, er í forsæti, þ.e. Vinstrihreyfingunni – grænu framboði. Það er auðvitað vandamál sem hv. þingmaður og þingflokkur Sjálfstæðisflokksins allur verður að gera upp við sjálfan sig, hvernig menn ætla að komast fram hjá til að komast áfram með þessi mál. Á meðan samstarfið heldur og afstaðan er sú að menn komist ekki áfram í þessu stjórnarsamstarfi þá er það auðvitað þannig að orðin hafa minni merkingu heldur en ef hér væri raunverulega keyrt áfram til hagsældar í þessum efnum.