154. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2023.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2024.

2. mál
[16:31]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbrandi Einarssyni fyrir sína ræðu sem var um margt mjög góð og fín og áhugaverðir punktar. Mig langar aðeins að staldra við nokkur atriði. Það var margt áhugavert sem þarna kom fram en þegar ég las nefndarálitið í morgun staldraði ég við hjúkrunarheimilin vegna þess að þær tölur sem þar koma fram eru ekki þær sömu og ég hef undir höndum, þar sem á landinu eru 573 sem bíða eftir hjúkrunarheimili en ekki 800 og á höfuðborgarsvæðinu eru 268 á bið en ekki 400 í Reykjavík. En látum það liggja á milli hluta af því að ég tek undir það með þingflokki Viðreisnar að það er mikilvægt að fjölga hér hjúkrunarrýmum og þá sérstaklega úrræðum fyrir eldra fólk sem klárað hefur meðferð á Landspítala.

Í því samhengi langar mig að draga fram að hæstv. heilbrigðisráðherra Willum Þór Þórsson hefur einmitt lagt sérstaka áherslu á það. Við höfum séð að endurhæfingarrýmum á Eir fjölgaði úr 24 í 44, 39 ný endurhæfingarrými á gamla Sólvangi í Hafnarfirði, samningur um þjónustu við veika aldraða á Vífilsstöðum og biðrýmum hefur fjölgað verulega. Miklar tafir hafa því miður víða orðið við byggingu á nýjum hjúkrunarheimilum sem hafa verið í farvatninu, með tilheyrandi áhrifum. Að frumkvæði heilbrigðisráðherra var því farið af stað í vinnu við að endurskoða fyrirkomulag um uppbyggingu hjúkrunarheimila í þeim tilgangi að flýta nauðsynlegri uppbyggingu og auka hagræði. Sá hópur hefur nú skilað tillögum að breyttu fyrirkomulagi sem munu vonandi koma fram á nýju ári. En á sama tíma og þetta hefur verið að gerast þá hefur hjúkrunarrýmum fækkað hjá Reykjavíkurborg, þar sem Viðreisn hefur m.a. verið þátttakandi í meiri hluta, og nýverið var tekin ákvörðun um að loka hjúkrunarheimilinu í Seljahlíð. Þar voru 22 rými og eru nú orðin 16. (Forseti hringir.) Til stendur, samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef, (Forseti hringir.) að því hjúkrunarheimili verði lokað í febrúar. Mig langar að spyrja (Forseti hringir.) hv. þingmann hvort hann hafi ekki áhyggjur af þessari stöðu heilt yfir og þessum áformum hjá Reykjavíkurborg sjálfri.

(Forseti (ÁsF): Ég áminni þingmanninn um ræðutímann.)