154. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2023.

Störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Það er búin að vera mikil umræða síðustu daga um orkumálin og nú eru rétt fjögur ár síðan aðventustormurinn svokallaði gekk yfir Norður- og Austurland þannig að flutningskerfi raforku tjónaðist verulega og sem aldrei fyrr. Við höfum aldrei séð slíkt ástand eins og skapaðist þá daga á Norður- og Austurlandi í raforkumálum.

Fyrir rúmum mánuði mælti ég fyrir þingsályktunartillögu til að flýta uppbyggingu flutningskerfis raforku, þ.e. að tengja saman Norðurland og Suðurland. Í dag er búið að laga kerfin á milli Akureyrar og Fljótsdalsstöðvar og nú þarf að tengja frá Akureyri yfir í Hvalfjörð. Þar er um fjórar línur að ræða og það þarf að flýta því ferli. Verið hafa töluverðar umræður um að setja lög á virkjanir og það hefur verið í umræðunni núna undanfarna daga. Ég tel rétt að skoða, sem kom ekki fram í tillögunni á sínum tíma, hvort það þyrfti að setja lög á þessar línur í flutningskerfinu til að tryggja einmitt raforkuöryggi, afhendingaröryggi orku í landinu. Þessar línur eru Blöndulína 3, Holtavörðulína 1, Holtavörðulína 3 og og Suðurnesjalína 2, sem virðist nú vera ágætisgangur í núna og verður mögulega framkvæmd á næstunni. Það er eitt stærsta mál í raforkumálum þjóðarinnar að tengja saman norður- og suðursvæði landsins. Ef raforkukerfið, þetta græna kerfi, byggt á endurnýjanlegri orku, á að virka þá þarf að tengja allar aflstöðvar landsins saman. Ef við ætlum síðan að byggja á vindi og jarðvarmanum og vatnsaflinu þá þarf þetta að skapa eina heild og kjarninn í því kerfi er uppbygging á flutningskerfi raforku.

Ég vil taka það fram í lokin að það tók enginn þátt í umræðunni þegar tillagan var flutt á sínum tíma.